Mikilvægi fjarskiptaöryggis og aukin efnahagsleg samvinna Bandaríkjanna og Íslands var meðal þess sem bar á góma á símafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra átti  Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær að því er fram kemur á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Bandarísk stjórnvöld hafa að undanförnum þrýst á að Íslendingar sem og önnur ríki hafni fjarskiptabúnaði frá kínverska tæknirisanum Huawei. Bæði Nova og Sýn, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hyggjast nýta tækni frá Huawei við uppbyggingu 5G fjarskiptanets sem boðuð er á næstu árum.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hvatti Íslendinga til að sniðganga tækni frá Huawei í h eimsókn sinni hingað til lands í fyrra . Bandaríska sendiráðið hér á landi hefur einnig beitt þrýstingi til að fá íslensk fyrirtæki ofan af því að nýta tækni frá Huawei.

Stjórnvöld hafa boðað lagasetningu þar sem heimilt verður að banna fjarskiptabúnað frá löndum utan EES og NATO. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra sagði við RÚV í ágúst a ð það ætti eftir að koma í ljós hvort hann myndi nýta sér heimildina í lögum. Hann sagðist þó ekki kannast við að bandarísk stjórnvöld hefðu beitt sig þrýstingi.

Pólitísk afskipti bitni á hagvexti

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar hafa, lét hafa eftir sér við uppgjör félagsins í vikunni að þessi afskipti myndu koma niður á hagvexti til framtíðar.  „Það ríkir óvissa um 5G-væðingu vegna afskipta stjórnvalda af framleiðendum fjarskiptabúnaðar og uppbygging er í raun þegar farin að tefjast vegna þeirrar óvissu, sem aftur bitnar á hagvexti framtíðar. Búnaður allra framleiðenda á vitaskuld að lúta sömu ströngu öryggiskröfunum, annað væri falskt öryggi og hrein mismunum á samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði,“ sagði Heiðar.

Fákeppni fáum til góða

Í leiðara Economist er bent á að 5G búnaður Huawei hafi verið svo gott sem bannaður í Ástralíu, Kanada og Japan. Bretar boðuðu í júlí að þeir myndu ekki nýta 5G tækni frá Huawei, og Svíar gáfu út í október að 5G búnaður yrði bannaður þar í landi.

Economist bendir hins vegar á að ef lönd ætli ekki að nýta sér tækni frá Huawei þurfi þau að treysta á tækni annað hvort frá Nokia eða hinu sænska Ericsson. Hlutabréfaverð í Nokia féllu um 20% eftir uppgjör félagsins í lok október. Þá sagði forstjóri Nokia fyrirtækið væri klárlega eftir á keppinautum sínum hvað varðar 5G tæknina. Að hafa úr tveimur fyrirtækjum að velja sé sjaldnast gott fyrir samkeppni.

Economist segir hugsanlega sé önnur leið. Vodafone á Bretlandi sé að skoða möguleikann á að nota svokallaða OpenRAN fjarskiptatækni í stað þess að treysta á búnað frá fyrirtækjunum þremur. Sú tækni sé skammt á veg komin en gangi það eftir sé unnt að nýta búnað frá nokkrum fyrirtækjum samtímis.