Sigurður Gísli Pálmason, hluthafi í útgáfufélagi Fréttatímans, og Vilhjálmur Þorsteinsson, einn eigenda Kjarnans, funduðu um síðustu helgi og ræddu mögulegt samstarf fjölmiðlanna tveggja. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins.

Fjárfestarnir tveir vildu ekki ræða um gang viðræðnanna eða hvort að stefnt sé að sameiningu miðlanna. Vilhjálmur Þorsteinsson sagði í samtali við Fréttablaðið að menn væru alltaf að velta fyrir sér fjölmiðlabransanum og stöðu hans og horfum.

Dexter fjárfestingar ehf. sem er í eigu Sigurðar Gísla á 29% í Morgundegi, útgáfufélagi Fréttatímans. Vilhjálmur er annar stærsti hluthafi Kjarnans Miðla ehf. með 15,98% í gegnum félag sitt Miðeind.