Ríflega sextán þúsund fermetra skrifstofu- og verslunarhúsnæði við Urðarhvarf 8 í Kópavogi stendur enn autt. Húsið er fokhelt og meira en milljarð kostar að klára það. Íslandsbanki eignaðist fasteignina árið 2011 eftir skuldauppgjör við fyrri eiganda. Fyrir rétt rúmu ári síðan seldi bankinn eignina til fyrirtækisins Heilsubogans. Í tilkynningu frá bankanum í desember 2014 sagði að kaupverðið væri trúnaðarmál. Samkvæmt ársreikningi Heilsubogans fyrir árið 2014 kemur fram að kaupverðið hafi verið 730 milljónir króna. Fasteignamatið er 1.030 milljónir.

Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Heilsubogans, segir að rætt hafi verið við ýmsa aðila um að koma með starfsemi í húsið en ekkert sé enn fast í hendi. Þegar fréttir birtust af því í sumar að Landsbankinn hygðist hugsanlega byggja nýjar, 14.500 fermetra, höfuðstöðvar við Austurhöfn Reykjavíkur fyrir átta milljarða króna bentu bæði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, á að húsnæðið við Urðarhvarf stæði tómt og myndi henta vel fyrir bankann.

Guðmundur segir að fundaði hafi verið með forsvarsmönnum Landsbankans vegna þessa máls síðasta haust.

„Þetta var ágætur fundur en eftir hann sögðust þeir vera að leita að öðrum kostum," segir Guðmundur. „Ég vil samt meina að þetta hús sé fullkomið fyrir Landsbankann."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .