Íslensk stjórnvöld eiga nú í viðræðum við fulltrúa bandarískra fjárfestingarsjóða sem eiga vel yfir hundrað milljarða í aflandskrónum en neituðu að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í fyrra. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti.

Þar reyna stjórnvöld að kanna grundvöll samkomulags sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Gengið yrði því talsvert hagstæðara fyrir fjárfestingarsjóðina, líklega á genginu 130 til 140 krónur gagnvart evru. Gengi krónunnar hefur styrkst um nálega 20 prósent frá útboði Seðlabankans.

Heimildir Markaðarins herma að embættismenn á vegum íslenskra stjórnvalda hafi haldið út til New York síðastliðinn sunnudag til að funda með bandarísku vogunarsjóðunum; Autonomy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital. Þeir sem fundinn sóttu voru að sögn Markaðarins voru Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta á skrifstofu seðlabankastjóra, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og Benedikt Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Bæði Guðmundur og Benedikt eiga sæti í stýrinefnd um losun hafta.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu og sagði að það væri „í vinnslu“.