Í kjölfar gjaldþrots Wow air var því spáð að samdráttur yrði í hagkerfinu á þessu ári og að landsframleiðsla myndi jafnvel dragast saman um 1,9%. Nú er útlit fyrir að svo verði ekki. Samkvæmt Hagstofunni var 2,7% hagvöxtur á 2. ársfjórðungi. Til að setja það í samhengi þá spáði Seðlabankinn því um síðustu mánaðamót að 0,2% samdráttur yrði á árinu. Þá var Hagstofan ekki búin að birta tölur fyrir 2. ársfjórðung og miðaði spá Seðlabankans við að 1% samdráttur hefði orðið á fjórðungnum en eins og áður sagði var 2,7% hagvöxtur.

„Staðan er töluvert betri en menn spáðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út.

„Þegar Wow fór í gjaldþrot sagði ég að hagkerfið væri vel í stakk búið til takast á við það. Vil ég þá ekki gera lítið úr því áfalli sem starfsmenn fyrirtækisins urðu fyrir þegar þeir misstu vinnuna og vissulega eru erfiðleikar hjá sumum ferðaþjónustufyrirtækjum eftir gjaldþrot flugfélagsins. Aftur á móti eru efnahagslegu áhrifin minni en búist var við, sem er auðvitað mjög jákvætt. Það var ekki einungis gjaldþrot Wow sem dundi yfir okkur síðasta vetur heldur varð líka loðnubrestur þannig að útlitið var ekkert sérstakt. Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi sést líka að ríkisstjórnin nýtir svigrúm í ríkisfjármálum til þess að styðja við hagkerfið með fjárfestingu og félagslegum áherslum. “

„Annað hefði verið óábyrgt“

Ýmsir voru þeirrar skoðunar að ríkið hefði átt að grípa inn í hjá Wow og bjarga félaginu frá falli.

„Við ræddum þann möguleika, annað hefði verið óábyrgt. Við fórum yfir fordæmi frá öðrum löndum og eftir að hafa skoðað þetta í kjölinn töldum við ekki réttlætanlegt að grípa inn í. Við töldum alltof mikil áhættu fólgna í því að setja opinbert fé í svona áhættusaman rekstur. Það kunna alveg að koma upp þjóðhagslegar ástæður sem réttlæta inngrip af þessu tagi en í þessu tilfelli voru þær ekki til staðar. Ég tel að við höfum gert rétt og það er kannski að sýna sig núna.“

Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra er hægt að lesa í heild í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .