Foyrstumenn VR, Eflingar og Bandalags háskólamanna (BHM) segja að ekki verði lengra haldið í kjaraviðræðum nema að Samtök atvinnulífsins og ríkið setji fram hugmyndir um breytt vinnufyrirkomulag til hliðar og einblínt verði á taxtahækkanir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir í samtali við Morgunblaðið að vegna áherslu Samtaka atvinnulífsins á að ræða vinnutíma en ekki launakröfur séu menn komnir upp að vegg í viðræðunum. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, og Páll Halldórsson, formaður BHM, taka í sama streng.

„Tíminn er stöðugt að þrengjast. Við höfum einfaldlega sagt, og sögðum við SA hjá ríkissáttasemjara á þriðjudag, að menn skyldu taka vinnutímann út fyrir sviga til að létta á málinu – að þessi mál yrðu rædd áfram og svo afgreidd með sérstakri atkvæðagreiðslu – og að við skyldum einbeita okkur að þeim samningi sem nú er undir. Samtök atvinnulífsins sögðu þá strax að þau gætu ekki fallist á það og komu aftur með sömu framsetninguna og kröfur og þar með var fundi slitið,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.