Það er okkur tamt sem búum á norðurslóðum að tala um laxeldi sem upphaf og endi alls í fiskeldi. Það er þó ekki í samhengi við mikilvægi einstakra eldistegunda þó laxeldið sé mikilvægasta eldistegundin í okkar heimshluta. Eldi á kyrrahafshvítrækju er ágætt dæmi í þessu samhengi.

Kyrrahafshvítrækja (Litopenaeus vannamei) og eldi þeirrar tegundar er til sérstakrar umfjöllunar hjá tæknifyrirtækinu Hatch í sérstakri úttekt á tækni og umfangi rækjueldis í heiminum, sem fyrirtækið vill meina að sé hin víðtækasta sem gerð hefur verið til þessa dags.

Veltir þúsundum milljarða

Í úttekt Hatch er horft til ársins 2017 og kemur í ljós að eldi á kyrrahafshvítrækju skilaði meiri verðmætum en aðrar eldistegundir. Eldið nær til 36 ríkja og skilaði 26.7 milljörðum bandaríkjadala það ár, eða 3.400 milljörðum íslenskra króna. Það er 1.300 milljörðum meira en í tilfelli eldis á atlantshafslaxi, samkvæmt tölfræði Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Niðurstaðan í úttekt Hatch er þó einnig sú að eldismenn í kyrrahafshvítrækju glíma við margar en ólíkar áskoranir, allt eftir því hvar eldið er staðsett. Þau sex ríki sem framleiddu mest voru til skoðunar – eða Indónesía, Indland, Ekvador, Kína, Tæland og Víetnam.

Sprenging í eldi

Þróun eldis á þessari tegundar er með nokkrum ólíkindum. Byrjað var að ala rækjuna í Suður-Ameríku árið 1969. Árið 1980 voru alin á heimsvísu um 8.000 tonn. Tíföldun var staðreynd árið 1988 og 194.000 tonn voru framleidd árið 1998. Eldið skilaði síðan nokkru minna árin á eftir en þá komu Asíuþjóðir inn á markaðinn og vöxturinn varð gríðarlegur árin og áratuginn á eftir. Árið 2004 voru alin 1,4 milljónir tonna en árið sem er til skoðunar í úttekt Hatch var eldi á þessari rækjutegund að skila 4.1 milljón tonna. Þessari þróun hefur síðan fylgt verðfall á helstu mörkuðum, sem ekki eru síst í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu, samkvæmt upplýsingum frá FAO. Litlir framleiðendur eiga erfitt uppdráttar en þeir stóru hafa bolmagn til að standa verðlækkanirnar af sér, segir í sömu heimild.

Kemur ekki hingað

Kyrrahafshvítrækja á uppruna sinn að rekja til austur Kyrrahafs. Tegundin er heitsjávarrækja sem vex og dafnar vel í sínu villta umhverfi við hitastig yfir 20 gráðum við miðbaug. Tegundin þolir ekki hitastig undir átta gráðum sem útilokar að tegundin geti tímgast og þrifist í villtu vistkerfi hér við land. Öðru gegnir hins vegar um smitvalda, þeir gætu hæglega lifað og dreift sér komist þeir með einhverju móti í vistkerfið, segir í matskýrslu fisksjúkdómanefndar frá árinu 2017 vegna umsóknar um innflutning á þessari rækjutegund til notkunar við rannsóknir á sviði næringarfræði.

Umsókninni var hafnað á þeirri forsendu að umræddri rækjutegund sé mjög sjúkdómasækin og er meðal annars hýsill fyrir nokkra tilkynningaskylda veirusjúkdóma – þar á meðal hvítblettaveiki.

„Sú vitneskja liggur fyrir að okkar íslenska humartegund (Nephrops norwegigus) er næm fyrir hvítblettaveiki (White spott disease), sem talinn er einhver alvarlegasti smitsjúkdómur sem leggst á krabbadýr. Auk þess er talið vel hugsanlegt að íslenska rækjan (Pandalus borealis) sé einnig móttækileg fyrir þessari veiru,“ segir í niðurstöðum fisksjúkdómanefndar.