Ópíumframleiðsla í Afganistan hefur aukist um 43% frá því í fyrra samkvæmt gögnum deildar Sameinuðu þjóðanna sem sérhæfir sig í eiturlyfjatengdum málum. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Ræktanlegt land fyrir ópíum hefur einnig aukist um 10% á heimsvísu upp í 201 þúsund hektara. Betri aðstæður til ræktunar leiddu til þess að framleiðsla jókst svo mikið á árinu.

Ólögleg ræktun

Afganistan er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum. Ópíum er meðal annars notað til þess að framleiða heróín, eitt af hættulegustu eiturlyfjum heims. Ræktun á ópíum er ólöglegt í Afganistan, en er enn hluti af ræktun í þessu fátæka landi.

Talíbanar skattleggja

Talíbanar í Afganistan skattleggja ræktun á efninu til þess að safna fé til vopnakaupa og aukinnar hervæðingar. framkvæmdastjóri deildar SÞ sem fæst við eiturlyf Yury Fedotov, sagði að SÞ hefðu áhyggjur af þessari aukningu.