Sigríður Ýr Unnarsdóttir stofnaði nýlega ferðaþjónustufyrirtækið Venture North, sem hyggst gera út svokölluð róðrabretti. Starfsemin verður staðsett á Akureyri, þar sem Sigríður er fædd og uppalin, en hún hefur verið búsett á Suðurlandi síðustu ár.

Hugmyndin kviknaði þegar hún ákvað að flytja aftur á heimaslóðirnar og fór að velta því fyrir sér hvað hún vildi gera þar. „Ég sá þarna smá gat á markaðnum á Akureyri, því það er engin svona afþreying í boði þar. Það er allskonar uppbygging í gangi á bæjunum í kring: Dalvík, Hauganesi, Grenivík. En svona afþreying innanbæjar á Akureyri er bara ekki til.“

Brimbretti sem róið er á
Sigríður hefur starfað við jöklaleiðsögn og stýrt kajak-ferðum á Suðurlandi, en langaði í eitthvað nýtt. „Ég kynntist þessum brettum í Bandaríkjunum og hafði mjög gaman af þeim, og fór í framhaldinu að skoða hvort það væri einhver markaður fyrir svona ferðir hér á landi. Það er alveg heilmikill bransi í þessu í nánast öllum öðrum löndum, en þótt þetta sé nú aðeins byrjað hérna fyrir sunnan þá er ekkert á Norðurlandi.“

Brettin kallast Stand Up Paddleboard, eða SUP-board, á ensku, og eru nokkurs konar uppblásin brimbretti sem róið er á. „Við þýddum þetta sem róðrabretti. Það er talað um þetta sem samblöndu brimbrettis, kajaks og kanós. Þetta er í raun eins og stórt brimbretti, en þú ert með eina ár, þannig að þú ert að róa á brettinu. Þú stendur uppi á brettinu og ert með árina öðrum megin við þig, og ýtir þér áfram með því að róa.“

Allt frá krökkunum til ömmu
Í dag er Sigríður að vinna að viðskiptaáætlun og þeim leyfum og öðru sem til þarf: meðal annars kennsluréttindum á brettin frá Bretlandi, sem hún stefnir að því að öðlast nú í vor. „Það sem ég sé við þessi bretti – svona fyrir utan hvað þetta er ógeðslega skemmtilegt – er að þetta er fyrir alla. Ég hef farið með allt frá krökkunum mínum til ömmu minnar á þessi bretti. Þeir lengst komnu geta verið í hörkuróðri, en það er líka hægt að taka því bara rólega,“ segir hún.

Á brettunum er hægt að standa, krjúpa eða sitja, og hægt að fara í vötn, sjó, ár og sundlaugar þess vegna. „Ef þú ert óstöðugur þá er hægt að krjúpa og vera bara á hnjánum, og þá ertu kominn með betra jafnvægi, og svo er hægt að setjast alveg niður. Árin er stækkanleg þannig að þú stillir hana bara eftir því í hvaða hæð þú ert, og þannig geta allir farið í svona ferð,“ segir hún, en sé setið á brettinu sé það í raun orðið svipað og að vera á kajak.

„Þessi sveigjanleiki er helsti kosturinn við þetta. Ef öll fjölskyldan kemur saman þá munu kannski einhverjir vilja standa á meðan aðrir vilja sitja. Ég sé það sem mikinn kost fyrir hópa sem koma í svona ferðir að þú þarft ekki að kunna þetta sérstaklega. Það er hægt að stilla sig alveg af þannig að hópurinn getur verið á mismunandi stigum. Þetta er afþreying sem hentar fyrir breiðan hóp.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .