Hugmyndir eru uppi innan Stjórnarráðsins um að flytja starfsemi þess í Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu. Stjórnarráðshúsið er við Lækjargötu en með starfsemi víða, svo sem við Hverfisgötuna og í bakhúsum við Stjórnarráðshúsið. Viðskiptablaðið hefur reyndar heimildir fyrir því að flutningurinn í Þjóðmenningarhúsið sé ekki kominn af hugmyndastiginu.

Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um flutning Stjórnarráðsins til að koma starfseminni undir eitt þak. M.a. var fyrir einhverjum árum gerð teikning af viðbyggingu sem fyrirhuguð var við stjórnarráðið við Lækjargötu. Ekkert varð af viðbyggingunni.

Gat rúmað 16 stórglæpamenn

Stjórnarráðshúsið er komið til ára sinna en hafinn var undirbúningur að byggingu þess árið 1761 og lauk framkvæmdum áratug síðar. Húsið var notað sem fangelsi um nokkurra áratuga skeið. Samkvæmt lýsingu af því voru austanmegin í húsinu tvær stórar vinnustofur og á milli þeirra lítill gangur og tvöfaldir kamrar. Í hvorum enda voru tveir klefar fyrir stórglæpamenn. Þá var gert ráð fyrir aðstöðu fyrir tugtmeistara og dyravörð. Talið var að húsið hafi getað rúmað rúmlega 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga.

Hætt var að vista fanga í Stjórnarráðshúsinu vegna kreppu hér á landi 1816 í kjölfar Napóleonsstríðanna í Evrópu. Í húsið fluttu síðar stiftamtmaður og landshöfðingi. Hannes Hafstein og heimastjórn landsins fengu svo húsið til umráða árið 1904 og var því þá breytt í stjórnarráðsskrifstofur. Stjórnarráðshúsið hýsir í dag forsætisráðuneytið og tengdar skrifstofur

Nánar má lesa um Stjórnarráðshúsið á vef forsætisráðuneytis