Landbúnaðarráðherra G20-ríkjanna munu hittast á fundi í París í dag og ræða hvernig bregðast má við stöðugu flökti á matvælaverði en í nýrri skýrslu sem Alþjóðabankinn hefur birt, og BBC, vitnar í er hækkandi matvælaverð sagt ógn við efnahagsbata í heiminum. Robert Zoellick, forstjóri bankans, bætir um betur og segir hækkandi matvælaverð helstu einstöku ógnina við þróunarríkin. „Fólk skortir bæði mat og aðgerðir,“ segir Zoellick.

Bankinn telur að um 44 milljónir manna hafi bæst í þann hóp sem lifir undir hungurmörkum síðan í júní í fyrra og að alls lifi um milljarður manna undir hungurmörkum í heiminum. Alþjóðabankinn hefur þróað nýtt fjármálaverkfæri sem gerir neytendum og seljendum kleift að verja sig gegn hækkunum matvælaverðs og verður það verkfæri meðal þess sem ráðherrar G20-ríkjanna ræða í dag.