Viðræður standa yfir um yfirtöku slitastjórnar Sparisjóðabankans (áður Icebank) á eignarhaldi snyrtiskólans Snyrtiakademíunnar í Kópavogi. Skólinn var stofnaður árið 2003 og er hann samansettur úr þremur öðrum skólum, þ.e. Snyrtiskólanum, Fótaaðgerðaskóla Íslands og Förðunarskólanum.

Skólinn starfrækir nám á framhaldsskólastigi með snyrtifræði sem sérgrein og eru nemendur að meðaltali um 70 talsins. Tómas Jónsson lögmaður, annar tveggja í slitastjórninni, segir jafnframt að reynt hafi verið að selja skólann. Það hafi fram til þessa engu skilað.

Snyrtiakademían er í eigu félagsins Maxima ehf. Það er í eigu nokkurra einstaklinga. Samkvæmt ársuppgjöri Maxima skuldaði félagið Icebank 46,7 milljónir króna í lok árs 2012. Á sama tíma var eigið fé félagsins neikvætt um 32,5 milljónir króna.