Formlegar viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna munu hefjast fyrir kosningar, að sögn Katrínar Júlíusdóttur, fjármálaráðherra. Búið er að kortleggja stöðu þrotabúanna og hvaða áhrif samningar við kröfuhafana munu hafa.

Blooomberg-fréttaveitan fjallar í dag um frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á gjaldeyrislögum sem meðal annars fela í sér að tekin er út almenn undanþága frá banni við flutningi króna milli landa með viðskipta með skuldabréf sem Seðlabankinn telur veðhæf í viðskiptum. Þá fær bankinn heimildir til að setja reglur um slíkar undanþágur án þess að þær séu beintengdar við veðhæfið.

Katrín sagði reyndar í samtali við vb.is í vikunni að Seðlabankinn hafi alltaf haft full tök á að setja reglur um aflandskrónur, en þessi breyting nú varði aðrar krónur í eigu erlendra aðila, svokallaðar álandskrónur. Katrín mælti fyrir frumvarpinu á miðvikudag og olli það miklum titringi á skuldabréfamarkaði.