Raftækjaverslunin ELKO hefur verið starfrækt frá árinu 1998 og er óhætt að segja að hún hafi vaxið umtalsvert frá stofnun.

Í dag rekur ELKO verslanir í Skeifunni, Lindum, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Granda auk vefverslunar, en allar verslanir ELKO hafa gengið í gegnum stækkanir og endurnýjanir á undanförnum árum. Hjá ELKO starfa um 90 manns í fullu starfi og um 120 manns samtals, en Gestur Hjaltason hefur verið framkvæmdastjóri ELKO frá árinu 2002 og hefur leitt fyrirtækið í gegnum mikinn vöxt.

ELKO var upphaflega í eigu Norvik en var ásamt öðrum verslunum í eigu félagsins selt til Festi árið 2014. Gestur segir tíma sinn hjá Elko hafa verið mjög ánægjulegan og finnur fyrir því að hagur Íslendinga hefur verið að vænkast. Hins vegar hafi verslunin fundið fyrir miklum launahækkunum.

Þú hefur verið framkvæmdastjóri ELKO um árabil. Hvað kom til með að þú tókst við þessu starfi?

„Það má segja að rætur mínar liggi í matvöruverslun, ég byrjaði hjá Hagkaupum í Skeifunni eftir að ég kom heim frá Bretlandi og var verslunarstjóri þar, en sú verslun var flaggskip Hagkaupa á þeim tíma. Eftir sjö ára starf þar var ég ráð­inn framkvæmdastjóri IKEA, sem var þá bara 400 fermetra deild uppi á lofti í Skeifunni en síðan var ákveðið að gera það að sérverslun. Þar starfaði ég í 12 ár og þá ákveða eigendur Hagkaupa að setja pening inn í kjötkompaní á Suðurlandi sem hét Höfn-Þríhyrningur og vantaði heimamann til að reka það. Fjárfestingin var hugsuð þannig að bændur hefðu fleiri valkosti til að leggja inn afurðir og kjötkaupendur hefðu einnig meira val.

Ég er uppalinn Selfyssingur og er fenginn þarna austur, í sjálfu sér fannst manni það mjög skrítið að fara úr IKEA í að fara að reka sláturhús og matvöruverslanir, en eftir afskaplega skemmtileg 12 ár í IKEA vantaði kannski pínu áskorun. Ég fer á Selfoss í þann blóðuga kjötbransa, þar sem ég svaf lítið því þetta var erfiður rekstur – það þótti ágætt ef maður náði að sofa í fjóra tíma á sólarhring. Rekstrarumhverfið var þannig að offramboð var á flestum kjöttegundum, þannig að kaupendur höfðu mjög sterka stöðu og verð­in voru lág. Það var heldur ekkert sjálfgefið að þeir sem áttu Höfn-Þríhyrning, sem áttu einnig Hagkaup, Bónus og fleiri verslanakeðjur, myndu versla við mann.

Í þessu var ég í fimm ár þar til það var gert samkomulag meðal nokkurra sláturhúsa hringinn í kringum landið að sameinast. Þetta átti að renna saman í eitt risafyrirtæki og vera valkostur meðal annars við Sláturfélagið. Einn af fylgifiskunum var að leggja niður mitt starf og ná einnig fram hagræðingu í hinum sláturhúsunum, en þegar öll þessi sláturhús voru komin saman vildi enginn hagræða hjá sér en það var allt í lagi að hagræða hjá öðrum. Eftir ár var þetta allt farið á hausinn eftir að hafa verið sameinað undir merkjum Goða, en þá var ég hættur.

Eftir stutt stopp hjá innflutningsfyrirtæki sem ætlaði að flytja inn kanadísk hús endaði ég sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar í eitt ár, þar sem ég keyrði frá Selfossi til Keflavíkurflugvallar á hverjum degi. Síðan hafði Jón Helgi [Guðmundsson, eigandi Norvik] samband og spurði hvort ég vildi taka við ELKO, sem vantaði framkvæmdastjóra. Þau höfðu verið með sameiginlegan sölustjóra með BYKO-búðunum og síðan rekstrarstjóra en vantaði að halda aðeins fastar utan um reksturinn, þannig að hingað var ég ráðinn árið 2002 og hef verið hér síðan.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .