Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri netverslunarinnar Heimkaupa segir sölu rafrænna kennslubóka á háskólastigi hjá versluninni hafa aukist mikið. Met var sett í síðustu viku í fjölda seldra eintaka af rafrænum kennslubókum hjá Heimkaupum að því er segir í Morgunblaðinu í dag, en fyrirtækið býður kennslubækurnar annað hvort til sölu eða leigu.

Kemur fram að umtalsverður verðmunur sé á því að leigja rafbók annars vegar og hins vegar á því að kaupa prentaða bók. „Verðið virðist skipta námsmenn miklu meira máli en við gerðum ráð fyrir og sá valmöguleiki að leigja kennslubækur á rafrænu formi er mjög vinsæll,“ segir Guðmundur.

Þó er framboðið á kennslubókum á rafrænu formi enn takmarkað, og útgefendur eru sagðir hikandi og ekki stefna að útgáfu rafbóka. Bóksala stúdenta mun þó á næstunni bjóða kennslubækur til sölu og leigu á rafrænu formi.