Orkuskipti í samgöngum eru að hefjast fyrir alvöru. Þau munu líklega hafa mikil áhrif á samfélagið á næstu árum. Í nýrri skýrslu Norðurlandaráðs og Alþjóðaorkumálastofnunarinnar er því spáð að eftir 20 ár verði meira en helmingur bíla á Norðurlöndum knúinn rafmagni eða vetni. Fjöldi bíla sem aðeins eru knúnir bensíni eða dísilolíu mun staðna á næstu fimm árum á meðan fjöldi annarra bíla mun næstum því fimmfaldast.

Í raforkuspá orkuspárnefndar sem kom út seint á síðasta ári er því spáð að 6% nýskráðra bíla árið 2020 verði rafmagnsbílar. Því er síðan spáð að þetta hlutfall hækki mjög árin á eftir og að árið 2030 verði 68% nýrra bíla rafmagnsbílar. Á því ári muni 1% allrar raforku verða notuð í samgöngum, en því er spáð að árið 2050 verði 3,8% raforku notuð í samgöngur.

Samhliða þessum breytingum er líklegt að ráðist verði í mikla uppbyggingu innviða fyrir aðrar tegundir bíla en þá sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, einkum rafbíla. Þá mun innflutningur olíu, sem nú nemur tugum milljarða króna á ári, minnka verulega og mun það hafa áhrif á ýmsar hagstærðir. Hversu hratt þessar breytingar gerast og í hverju nákvæmlega þær munu felast er þó mikilli óvissu undirorpið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .