Þrátt fyrir mikið umtal eftir að ný bifreið Tesla Motors var kynnt til sögunnar í síðustu viku er ljóst að rafbílar eiga langt í land - en seldir rafbílar í Bandaríkjunum voru aðeins um 0,4% markaðarins. Rúmlega 71 þúsund rafbifreiðar voru seldar á síðasta ári, samkvæmt verslunarsamtökum um rafbíla sem staðsett eru í Washington. Helstu tegundir á markaði eru þá Nissan Leaf, Tesla Model S og X, BMW i3 og Chevrolet Volt.

Í heildina voru 17,4 milljónir bifreiða seldar á síðasta ári í Bandaríkjunum og því er ljós að talsvert þarf til að rafbílar verði jafn algengir og bensínbílar. Þess má þó geta að þessi markaðshlutdeild rafbíla er einmitt það sem Elon Musk vill breyta með framleiðslu Tesla Model 3 - að gera vel nothæfan og flottan rafbíl sem kostar ekki of mikinn pening.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa 325 þúsund Tesla Model 3 bílar verið seldir í forsölu, og fólk hefur beðið í röðum fyrir utan útibú Tesla Motors til þess að leggja niður þúsund Bandaríkjadala innborgun á bíl sem verður ekki til næstu tvö árin.