*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 1. janúar 2021 16:09

Rafbílar fjórðungur nýrra árið 2020

Hlutdeild rafbíla í nýskráningum rúmlega þrefaldaðist milli ára. Tesla seldi jafn marga bíla og allir rafbílar árið áður.

Júlíus Þór Halldórsson
Tesla seldi 903 bíla hér á landi á árinu sem var að líða, þar af 856 af gerðinni Model 3 sem sjá má hér.
Aðsend mynd

Fjórði hver nýskráði nýi fólksbíll hér á landi árið 2020 var hreinn rafbíll, samanborið við 7,8% árið áður. Slíkar tölur eru sjaldséðar í heiminum, og aðeins Noregur skráir hlutfallslega fleiri rafbíla.

Alls voru 2.356 nýir raf-fólksbílar skráðir, 157% fleiri en 2019, þar af 903 Tesla bifreiðar, sem er um það bil sami fjöldi og heildarfjöldi óháð framleiðanda árið 2019. Þetta kemur fram í skráningartölum Samgöngustofu og tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þar kemur einnig fram að nýskráðum nýjum fólksbílum fækkaði um fimmtung milli ára og voru 9.369 talsins árið 2020. Fækkunin var þó öll tilkomin vegna 57% hruns í nýskráningum bílaleiga, en bæði einstaklingar og almenn fyrirtæki skráðu 7% fleiri bíla en 2019.

Miklar sveiflur innan ársins
Sé árinu skipt niður má sjá miklar sveiflur milli mánaða og árshluta. 43% samdráttur varð á fyrri árshelmingi samanborið við árið áður, en 17% aukning á þeim seinni. Nýskráningar féllu mest um 74% í maímánuði, en jukust mest um 44% í júlí.

Séu tvinn-, tengilvtvinn- og metanbílar teknir með rafbílunum sem svokallaðir nýorkubílar námu þeir 58% allra nýskráðra fólksbíla. Á eftir rafbílunum komu tengiltvinnbílar sem voru fimmti hver bíll (20%), tvinnbílar voru áttundi hver (12,5%), en aðeins einn af hverjum 250 eða 0,4% voru metanbílar.

Toyota var mest selda fólksbílategundin með 14,8% hlutdeild, en þar á eftir komu Kia með 9,9% og Tesla með 9,6%. Tesla opnaði útibú hér á landi í september 2019, en hóf ekki afhendingar fyrr en í mars 2020.