*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 21. október 2017 16:02

„Rafbíll er ekki bíll“

Francisco Carranza Sierra, framkvæmdastjóri Nissan Energy, segir fyrirtækið ekki einungis hafa hagnað að leiðarljósi heldur einnig að breyta heiminum til hins betra.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Hver einasti Nissan Leaf, mest seldi rafbíll í heimi, hefur verið seldur með tapi. Francisco er hins vegar sannfærður um að Nissan hafi gert rétt þegar það hóf sölu á bílnum í lok árs 2010.

Francisco er framkvæmdastjóri Nissan Energy, nýrrar deildar innan Nissan sem er ætlað að sjá um þróun rafkerfa í rafbílum fyrirtækisins. Francisco var meðal gesta á Charge-ráðstefnunni í Hörpu í síðustu viku. Stærsta verkefni deildarinnar til þessa er líkast til Nissan Leaf, mest seldi rafbíll í heimi. Til þessa hefur Nissan hins vegar selt Leaf með tapi.

„Rafbílavæðingin er, ekki bara fyrir Nissan heldur allan iðnaðinn, vegurinn að framtíðinni. Við vitum að það kemur ekkert annað til greina og að það verði ekki aftur snúið. Öll fyrirtæki eru að vinna að rafbílum en Nissan var með þeim fyrstu og við erum með þessu að undirbyggja framtíðina. Nissan Leaf hjálpar okkur í að efla vörumerkið okkar og færa viðskiptavinum okkar möguleikann á að kaupa sjálfbæran bíl. Við hugsum Nissan Leaf því til langs tíma í áætlunum okkar.“

Nissan Leaf var kynntur til leiks í desember árið 2010 í Bandaríkjunum og Japan og í Evrópu árið 2011. Hvað hafið þið lært á þeim tíma sem þið hafið framleitt Nissan Leaf? „Ótrúlega margt. Eitt það fyrsta sem við lærðum í upphafi áratugarins var að rafbíll er ekki bíll. Það eru miklu fleiri víddir og lög í rafbíl og nokkuð flókið hvernig samfélagið mun skipta úr hefðbundnum bílum í rafbíla. Ef þú heldur þig bara við að vera bílaframleiðandi með öllu sem því fylgir þá muntu aldrei fyllilega ná því hvað það þýðir að nota rafmagn sem orkugjafa. Þetta hefur leitt til mikilla breytinga á fyrirtækinu og aukins skilnings á því hvaða breytingar þarf að gera til að geta fullnýtt þá möguleika sem rafbílar hafa upp á að bjóða.“

Hann segir þrennt vera að gerast á bílamarkaði sem sé líklegt til að valda byltingu: rafvæðing bílaflotans, nettenging bíla og sjálfkeyrandi bílar. „Þetta er framtíðin í okkar geira. Það er ekki alveg ljóst hvernig fólk mun aðlagast þessari tækni og laga þessa tækni að sér. Það er hins vegar ljóst að stefnan er skýr í þessa átt svo við þurfum að stefna í þá átt.“

Francisco segir tilkomu sjálfkeyrandi bíla ekki endilega þýða minni bílasölu og að fólk muni deila bílum eins og margir hafa spáð. „Ef þú horfir á hvernig mannkynið hefur þróast sérðu að í dag erum við í kapphlaupi. Fólk vill fá hluti hraðar, skilvirkar og ódýrar. Deilihagkerfið gerir fólki kleift að fá hluti hraðar og ódýrar. Það þýðir hins vegar ekki endilega að bílum fækki. Það þýðir að ákveðinn hluti fólks mun á ákveðnu tímabili í lífinu ekki þurfa sinn eigin bíl. Það gæti notað deilibíla. En á ákveðnum tímapunkti í lífinu, þegar fólk á tvö börn og hund, gæti fólk viljað eiga sinn eigin bíl.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Orka og iðnaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Rafbílar