*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 9. mars 2020 08:32

Rafdrægni tengiltvinnbíla aukist mikið

Allt að 100km á rafmagni. Framkvæmdastjóri Öskju segir það duga flestum í svo til allan akstur.

Júlíus Þór Halldórsson
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, segir rafdrægni nýjustu tengiltvinnbíla hafa aukist til muna frá þeim sem á undan komu.
Eyþór Árnason

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju, segir öra þróun í vændum á rafbílamarkaðnum á næstu árum. „Framboðið hefur verið til staðar að einhverju leyti, en ekki af öllum þeim stærðum og gerðum sem fólk kann að þurfa og vilja. Þetta er svona tiltölulega takmarkað úrval af bílum í dag, og vilji fólk bíl í stærra lagi eru þeir enn sem komið er ansi dýrir.“

Það kunni að vera spennandi og skemmtileg kaup í slíkum bílum, en sé hugsunin að nýta sér fjárhagslega kosti lægri rekstrarkostnaðar rafbíla, vegi hátt innkaupaverð þungt þar á móti.

Þótt tengiltvinnbíllinn hafi verið fundinn upp á 19. öld, og fjöldaframleiðsla nokkurra tegunda hans hafist snemma á þessari öld, fóru þeir ekki að vera algengir fyrr en fyrir örfáum árum. Þeir áttu hinsvegar fátt skylt með tengiltvinnbílum komandi ára að sögn Jóns Trausta.

„Fyrstu tengiltvinnbílarnir voru með mjög litla drægni á rafmagni. Þeir voru kannski gefnir upp í kringum 30 kílómetra, en komust svo raunverulega ekki nema 15-20. Þeir bílar sem komast hvað lengst af þeirri kynslóð tengiltvinnbíla sem er að koma núna eru að keyra allt að 100 kílómetra á rafmagninu einu saman. Meginþorri Íslendinga keyrir svona 30-50 kílómetra á dag.

Ef þú ert með tengiltvinnbíl sem kemst hátt í 100 kílómetra ætti rafmagnið að duga þér í svo til allan akstur. Þú hefur svo alltaf jarðefnaeldsneytið upp á að hlaupa ef það klárast, og fyrir lengri ferðir út á land. Ísland er í raun fullkominn markaður fyrir tengiltvinn- og rafbíla.“

Hagstæðari kostur fyrir vísitölufjölskylduna
„Fyrir hina venjulegu vísitölufjölskyldu sem er að hugsa um efnahaginn og fjármálin hentar kannski ekki að kaupa bíl upp á tíu milljónir, heldur mun frekar að kaupa bíl á þrjár til fjórar milljónir sem þó kemst 60 kílómetra á rafmagni, og notar svo bensínið þegar það klárast.“

Fyrir meðalfjölskyldu ætti slík rafdrægni að duga til að skera bensínkostnaðinn duglega niður. Meðalakstur íslensks fólksbíls er um 35 kílómetrar á dag, og sé bílnum stungið í samband milli ferða – hvort heldur sem er heima eða á þeim vaxandi fjölda staða sem bjóða upp á hleðslustæði – má fara mun lengra á rafmagni á einum degi en drægni fullrar rafhlöðu segir til um.

Þótt tengiltvinnbílar séu búnir hefðbundinni bílvél og öllu sem henni fylgir, er viðhaldskostnaður talsvert lægri en í hreinum jarðefnaeldsneytisbíl, þar sem vélin er keyrð mun sjaldnar og minna, sjaldan eða aldrei ræst köld, endurhleðslubremsur (e. regenerative brakes) sjá um bróðurpart bremsunnar og slitna ekki líkt og hefðbundinn bremsubúnaður, og áfram mætti lengi telja.

Nánar er rætt við Jón Trausta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Sjá einnig: Fjórfölduðu markaðshlutdeildina