*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 2. október 2019 19:30

Rafhlaupahjól slá í gegn

Lager Mi Iceland, sem selur rafhlaupahjól frá Xiaomi, hefur tæmst nokkrum sinnum vegna vinsælda farartækjanna.

Sveinn Ólafur Melsted
Örvar Blær Guðmundsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Mi Iceland.
Gígja Einarsdóttir

Segja má að hálfgert rafhlaupahjólaæði hafi gripið landann undanfarið og ekki er óalgeng sjón að sjá fólk þeytast um götur bæjarins á slíkum farartækjum. Umræddur fararskjóti hefur einnig notið mikilla vinsælda í hinum ýmsu stórborgum víða um heim. Meðal stærstu framleiðenda rafhlaupahjóla er kínverski raftækjaframleiðandinn Xiaomi, í daglegu tali kallaður Mi, og er íslenska fyrirtækið Mi Iceland umboðsaðili þess framleiðanda hér á landi.

„Xiaomi framleiðir nánast allar gerðir raftækja. Til að byrja með voru símarnir aðalsöluvaran okkar en síðan í byrjun árs 2019 komu hlaupahjólin sterk inn og hefur lagerinn okkar af hjólunum tæmst nokkrum sinnum vegna vinsældanna.

Xiaomi er ekki nema níu ára gamalt fyrirtæki og er í dag fjórði stærsti farsímaframleiðandi í heimi, rétt á eftir Apple. Xiaomi er auk þess yngsta fyrirtæki sem er inni á Fortune 500 listanum í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það eru fáir á Íslandi sem vita hvað Xiaomi er samanborið við t.d. Apple, en fyrirtækið er að auka markaðshlutdeild sína á markaðnum mjög hratt. Ástæðan fyrir því að Xiaomi er orðið svona stórt á símamarkaði er að þeir eru með sambærileg, ef ekki betri símtæki, og eru þegar til, á mun lægra verði. Fyrirtækið hefur þegar fært sig til Evrópu og Bandaríkjanna og í dag er fyrirtækið að einblína sérstaklega á Norðurlandamarkaðinn," segir Örvar Blær Guðmundsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Mi Iceland.

Liðin tíð að kínversk raftæki séu drasl

Mi Iceland var stofnað í apríl árið 2017 og vefverslun þess var opnuð fyrir einu og hálfu ári.

„Starfsemin fór nokkuð hægt af stað en svo voru ákveðin atriði, eins og t.d. vinsældir rafhlaupahjólanna, sem juku sýnileika vörumerkisins á Íslandi. Maður tók fljótt eftir því að fólk áttaði sig á því að þetta eru góð tæki. Í byrjun vorum við svolítið að lenda í því að fólk var með ákveðna fordóma í garð raftækjaframleiðanda frá Kína sem selur vörur ódýrt. Það var svolítið innprentað í fólk að þar með hlytu vörurnar að vera drasl. En fyrir um 15-20 árum síðan áttuðu Kínverjarnir sig á því að þeir þyrftu ekki að vera í því að framleiða góðar vörur fyrir aðra en gera svo sjálfir slæmar eftirlíkingar og byrjuðu þá að þróa sínar eigin hágæða vörur," segir Örvar.

Líkt og áður segir hafa rafhlaupahjól slegið í gegn á heimsvísu að undanförnu og leigur sem leigja út slík hjól sprottið upp líkt og gorkúlur. Örvar segir rafhlaupahjólavæðinguna fela í sér fjölda tækifæra fyrir Mi Iceland.

„Mörg af þessum leiguhjólum í Evrópu og Bandaríkjum eru frá Xiaomi og það væri klárlega hægt að útfæra leigu hér á landi með hjólum frá okkur. Við höfum alveg velt þeim möguleika fyrir okkur að setja í gang svona leigu en það er mikil vinna á bakvið það að koma slíkri leigu á fót og við viljum frekar einblína á kjarnastarfsemi okkar. En mér þykir alls ekki ólíklegt að hjól frá okkur verði til leigu hjá einhverjum aðilum áður en langt um líður."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Fjallað er um ábótavant eftirlit með fjárhagsstöðu Íslandspósts
 • Verðtryggð húsnæðislán dragast saman í nýjum lánum vegna óvissu og óbeitar
 • Ný bók fjallar um sögu Norðmannsins sem var óvænt Í víglínu íslenskra fjármála
 • Sprotaráðstefna í Danmörku dró til sín öflugan hóp Íslendinga sem kynntust þar tilvonandi fjárfestum
 • Xiaochen Tian framkvæmdastjóri Guide to Iceland er í ítarlegu viðtali
 • Umræðum um nýja skýrslu starfshóps utanríkisráðherra um EES gerð skil
 • Niðurfærslu fasteignasjóða vegna ofmats á framvindu verkefna og vanmats á framkvæmdakostnaði
 • Rök virðast staðfesta efasemdir um neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins, sem nýta ekki fyrirliggjandi gögn
 • Nýr viðskiptastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins sem heitir eftir mönnum og músum er tekin tali
 • Rætt er um miklar breytingar á tollamálum landsins síðustu hálfu öldina
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Evrópusambandið
 • Óðinn skrifar um líf og dauða, sakir og bætur