Í ályktun sem samþykkt var á sambandsstjórnarfundi Rafiðnaðarsambandsins er kallað eftir efndum ríkisstjórnar Íslands á loforðum þeim er gefin voru í tengslum við gerð kjarasamninga þann 5. maí 2011. Nauðsynlegt sé að koma skuldugum heimilum, sem eiga við greiðsluvanda að stríða, til hjálpar. Draga beri úr eigna- og tekjutengingum vaxtabóta með þeim hætti að vaxtabæturnar skili sér jafnt til lág- og millitekjuhópanna.

„Millitekjuhópurinn er sá hópur sem ber þyngstu byrðarnar í skattlagningu þessa lands en hefur einnig komið hvað einna verst út úr Hruninu þar sem vaxtabætur hafa verið skornar niður og í mörgum tilfellum eru þær engar ásamt því að tekjuskattur á sama hóp hefur hækkað verulega!," segir í ályktuninni.

Tímabært að draga úr skattlagningu

„Það verður ekki bæði haldið og sleppt þar sem slík skattpíning kemur af fullum þunga niður á neyslu almennings og dregur þar af leiðandi atvinnulífið niður. Nauðsynlegt er að sýna mikið aðhald í ríkisfjármálunum en það skal gera á réttum stöðum og með það fyrir augum að mögulegt sé að örva atvinnulífið upp með aukinni neyslu almennings. Það er löngu kominn tími til þess að draga úr skattlagningu en til þess þarf að sýna hugrekki, dug og þor," samþykktu forystumenn Rafiðnaðarsambandsins á sambandsstjórnarfundi.