Guild Esports, rafíþróttafélag sem fyrrum knattspyrnuhetjan David Beckham á ráðandi hlut í, stefnir á að sækja sér 20 milljón punda fjármögnun með skráningu hlutabréfa sinn í Kauphöllina í London. Þar með verður rafíþróttafélagið það fyrsta í röðinni til að gera aðdáendum sínum kleift að styðja við sitt lið með því að kaupa hlut í því. BBC greinir frá þessu.

Rafíþróttir hafa notið síaukinna vinsælda undanfarið, ekki síst vegna strangra samkomutakmarkanna víða um heim fyrr á þessu ári. Vegna þeirra lagðist íþrótta- og menningarstarf tímabundið af og þá naut talsverðra vinsælda meðal almennings að horfa á streymi frá hinum ýmsu rafíþróttaviðburðum.

Guild Esports hyggst senda þátttakendur til leiks í alþjóðlegar keppnir þar sem keppt er í töluvleikjum á borð við FIFA, Fortnite, CS:Go og Rocket League. Þá stefnir liðið á að setja upp afreksstrarf fyrir efnilega rafíþróttamenn sem svipar til akademíustarfa liða í Ensku Úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fyrrnefndur Beckham kannast vel við slíkt starf, enda gekk hann sjálfur í gegnum akademíu enska stórliðsins Manchester United og spilaði með liðinu til fjölda ára eða allt þar til hann var seldur til spænska knattspyrnurisans Real Madrid.