Rafíþróttafyrirtækið FaZe Clan tilkynnti í dag að það myndi fara á markað í gegnum öfugan samruna við sérhæft yfirtökufélag. Virði sameiginlegs félags verður tæplega einn milljarður dala eða nærri 130 milljarðar króna að því er kemur fram í frétt Reuters .

FaZe Clan var stofnað árið 2010 og er nú með lið sem keppa á rafíþróttamótum í leikjum á borð við Call of Duty, FIFA, Counter-Strike, Fornite og Rocket League. Fyrirtækið sinnir einnig framleiðslu á myndefni og selur varning sem höfðaður er til ungs fólks og krakka. FaZe segist vera með meira en 350 milljónir notenda á vettvöngum sínum.

Sérhæfða yfirtökufélagið sem um ræðir, B. Riley Principal 150 Merger Corp, hefur hækkað um 14% í viðskiptum dagsins. Félagið safnaði 173 milljónum dala í frumútboði í febrúar síðastliðnum. Auk þess mun FaZe fá um 118 milljónir dala frá lokuðu útboði og aflar því alls 291 milljón dala við samninginn.

Fyrirtækið hefur á undanförnum árum fengið fjármögnun frá netverslunarvettvangnum Ntwrk, frumkvöðlinum Jimmy lovine, sem stofnaði m.a. Beats Electronics með Dr. Dre, og söngvarnum Pitbull.

Meðal einstaklinga sem búa til myndefni fyrir FaZe er íþróttakapparnir Kyler Myrray, sem spilar fyrir Arizona Cardinals í NFL deildinni, og körfuboltamaðurinn Ben Simmons, sem spilar fyrir Philadelphia 76ers í NBA. Þá gerði FaZe nýlega samstarfssamning við LeBron James Jr., son körfuboltamannsins LeBron James, en talið er að hann muni streyma leikjum fyrir fyrirtækið.