Rafknúið skip fór í fyrsta skipti í hvalaskoðunarferð hér við land. Um er að ræða seglskipið Opal sem er nýjasta viðbótin við flota Norðursiglingar á Húsavík. Meðal gesta við þetta tilefni var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Í tilkynningu segir að nýr skrúfubúnaður sem þróaður hafi verið sérstaklega fyrir Opal hafi þá sérstöðu að hægt er að hlaða rafgeyma skipsins undir seglum. Að jafnaði verða rafgeymarnir hlaðnir þegar skipið kemur til hafnar með umhverfisvænni orku af orkukerfi landsins. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Í tilkynningunni segir að þetta sé í fyrsta skipti sem slík tækni er nýtt um borð í skipi

Skipið var smíðað í skipasmíðastöðinni Bodenwerft í Damgarten, Þýskalandi árið 1951 sem togari og stundaði veiðar á Eystrarsalti, í Norðursjó og á Barentshafi. Árið 1973 hófu þáverandi eigendur endurbyggingu skipsins og á næstu 8 árum var Opal breytt í tveggja mastra skonnortu.