*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Umhverfismál 4. maí 2008 22:25

Rafknúinn Audi á markað innan 10 ára

Ritstjórn

Forstjóri Audi, Rupert Stadler, segir að fyrirtækið sjái mikla möguleika í rafmagnsbílum og muni bjóða bíla án útblásturskerfis innan tíu ára. Hann sagðist búast við því að á næstu 5-10 árum muni bílar sem knúnir eru bæði olíu og rafmagni verða allsráðandi, en svo muni bílar sem ganga eingöngu fyrir rafmagni taka við.

„Rafmagnsbílar bjóða upp á mikla möguleika“ sagði Stadler samkvæmt frétt Reuters. Aðspurður um hvort Audi væri ekki á eftir aðalkeppinautum sínum, Mercedes og BMW, í þessum efnum sagði Stadler að Audi væru öflugri er kæmi að rannsóknum og þróun en þessir keppinautar sínir. Mercedes og BMW hafa hafið þróun lithium-rafhlaða fyrir bíla sem eru öflugri en þær rafhlöður sem notaðar eru í rafbíla nú til dags.

Að þróa tækni sem sparar bensín er forgangsverkefni hjá bílaiðnaðinum um þessar mundir, til að uppfylla strangari reglur um losun koldíoxíðs og til að spara bensín. BMW segjast ætla að ákveða á þessu ári hvort þeir vilji framleiða rafmagnsbíl og General Motors, stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna, stefnir að því að setja á markað bíl sem stungið er í samband árið 2010.