Rafmagn á Íslandi verður selt á samkeppnismarkaði frá og með 1. janúar 2006 í samræmi við lög sem Alþingi samþykkti í mars 2003 um vinnslu, flutning, dreifingu og viðskipti með raforku. Allir stærri notendur, það er að segja þeir sem nota 100 kW afl eða meira, gátu valið sér raforkusala frá og með 1. janúar 2005.

Aðrir landsmenn öðlast þetta sama viðskiptafrelsi núna á nýársdag og geta þá samið um rafmagnskaup af þeim sem þeir kjósa helst segir í frétt á heimasíðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins.

Ætlað var að kaupendur rafmagns til heimilisnotkunar gætu í fyrsta lagi skipt um raforkusala 1. mars, þ.e. þeir sem ákveða að söðla um strax í janúar 2006. Hins vegar kann svo að fara að skiptin geti ekki átt sér stað fyrr en síðar, í byrjun maí eða júní, vegna tafa við að laga sænskan viðskiptahugbúnað að íslenskum aðstæðum á raforkumarkaði. Notendur sem eru tímamældir geta þó strax skipt um raforkusala en svo er einkum háttað um fyrirtæki og einstaklinga sem kaupa raforku í töluverðu magni. Þessi töf breytir ekki því að sjálf samkeppnin hefur innreið sína núna um áramótin og notendur geta strax byrjað að bera saman það sem sölufyrirtækin bjóða og semja um viðskipti við annan raforkusala ef svo ber undir.

Upplýsingar um rafmagnsverð samkvæmt gjaldskrám sölufyrirtækja, og leiðbeiningar til rafmagnskaupenda í samkeppnisumhverfi, verður að finna á heimasíðum Neytendastofu, neytendastofa.is, og Orkustofnunar, os.is. Þar verður einnig sérútbúin reiknivél til að áætla á einfaldan hátt útgjöld heimila vegna raforkunotkunar og bera saman gjaldskrár fyrirtækjanna sem keppa um viðskiptavini á markaðinum.

Áhrifa breytinga á raforkumarkaðinum gætir nú þegar. Flest raforkusölufyrirtækin hafa birt eða boðað gjaldskrár þar sem gert er ráð fyrir lækkun raforkuverðs. Fyrstu daga nýs árs verða samt notaðar upplýsingar úr núgildandi gjaldskrám allra sölufyrirtækjanna í reiknivél fyrir rafmagnsverð á heimasíðum Neytendastofu og Orkustofnunar.

Ætla má að nýjar gjaldskrár allra fyrirtækja liggi fyrir um miðjan janúar og verða þá notaðar sem forsendur útreiknings raforkunotkunar á heimasíðunum fyrrnefndu. Þess ber þó að geta að í mörgum tilfellum hafa sölufyrirtækin nú þegar birt nýjar gjaldskrár á heimasíðum sínum.