Hlutfall nýskráðra bifreiða sem nýta rafmagn eða blandaða orkugjafa er nú um 65,5%. Þróunin hefur verið hröð, en árið 2014 var hlutfall þeirra um 3%.

Um 7.783 fólksbifreiðar voru nýskráðar á fyrstu sjö mánuðum ársins, en nýskráningar hafa aukist um 37% í samanburði við sama tímabil á síðasta ári, þegar 5.676 nýjar fólksbifreiðar voru skráðar. Ríflega 46% bifreiðanna nýta blandaða orkugjafa, það er annaðhvort bensín eða dísil ásamt nýorku, en yfir 19% af nýju bifreiðunum ganga eingöngu fyrir rafmagni.

Samkvæmt tilkynningu frá Bílgreinasambandinu hafa um 3.200 bifreiðar selst til einstaklinga það sem af er ári, eða um 8% fleiri en á sama tímabili á síðasta ári, og um 1.100 til fyrirtækja annarra en bílaleiga, sem er aukning um tæp 7% milli ára. Þá hafa tæplega 3.400 fólksbifreiðar verið seldar til bílaleiga og er það ríflega tvöföldun frá sama tímabili á síðasta ári.

Í júlímánuði voru 1.742 nýjar fólksbifreiðar skráðar, eða um 17% fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Af þeim hafa um 1.100 verið seldar til bílaleiga og er það rétt rúm helmingsaukning í samanburði við júlí á síðasta ári.

Tesla vinsælasta rafbifreiðin

Árið 2014 gengu yfir 96% nýskráðra bifreiða eingöngu fyrir bensíni eða dísil en hlutfallið hefur farið lækkandi undanfarin ár. Árið 2019 var hlutfallið komið niður í 72%, þá í 42% á síðasta ári og er undir 35% það sem af er ári. Bifreiðar sem nýta nýorku að hluta til eða að öllu leyti eru því um 65,5% af öllum nýskráðum fólksbílum.

Toyota og Kia hafa verið langvinsælustu tegundirnar líkt og í fyrra, þar sem nýskráðar Toyota-bifreiðar eru 1.328 en Kia 1.255. Þriðja vinsælasta tegundin er Hyundai með 557 nýskráðar bifreiðar. Tesla var þriðja vinsælasta tegundin í fyrra en nú sú fimmta með 325 nýskráðar bifreiðar á árinu. Tesla Model 3 er önnur vinsælasta undirtegundin það sem af er ári, á eftir Toyota Rav4. Toyota Land Cruiser er sú þriðja og Toyota Yaris fjórða.

Sé eingöngu litið til rafbíla hefur Tesla Model 3 verið langvinsælust með 318 nýskráðar bifreiðar, þá Kia Niro með 157 og Nissan Leaf með 120. Toyota Rav4 hefur verið vinsælasta tegundin með blandaða orkugjafa, með 345 nýskráðar bifreiðar, þá Toyota Yaris með 224 og Hyundai Tucson með 190.

Markaðshlutdeild Tesla í nýskráðum bifreiðum hefur aukist hratt, en í upphafi síðasta árs voru aðeins um 150 Teslur í umferð hér á landi en þær eru nú orðnar tæplega 1.400, þar af voru 907 Teslur nýskráðar á síðasta ári. Model 3 er langvinsælust á meðal Teslna, en yfir 1.200 slíkar eru nú í umferð hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .