Norðurál greiddi 19 milljónum dollara, um 1,9 milljörðum króna, hærra verð fyrir rafmagn árið 2017 en 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls fyrir árið 2017.

Raforkuverð sem Norðurál greiðir er tengt álverði en meðalhækkun álverðs nam 23% á síðasta ári. Miðað við upplýsingar í ársreikningnum má áætla að um 15% af tekjum fyrirtækisins fari í að greiða fyrir rafmagn.

Álver Norðuráls á Grundartanga er með raforkusamninga við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og HS Orku. Um þriðjungur raforkunnar kemur frá Landsvirkjun en tveir þriðju frá OR og  HS  Orku samkvæmt upplýsingum í ársreikningi Norð- uráls en ekki kemur fram hvernig raforkan skiptist á milli þeirra.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kaupir Norðurál nálægt helming raforkunnar frá OR en afganginn frá HS Orku. Í ársreikningi OR kemur fram að tekjur fyrirtækisins vegna eins viðskiptavinar hafi veruleg áhrif á afkomu félagsins og næmu 13% af heildartekjum. Þar er um að ræða Norðurál. Tekjur Orkuveitunnar vegna Norðuráls námu 5,7 milljörðum króna oghækkuðu um 6,7% milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .