Rafmagnsbílar hefja nú fyrir alvöru innreið sína á götur Kaliforníufylkis í Bandaríkjunum.

Heidarfjöldi bifreiða í Kaliforníu er 21 milljón og þar búa um 36 milljónir manna. Bílarnir hafa þann löst að menga mikið og en um 40% af gróðurhúsalofttegundalosun í fylkinu kemur frá bílum.

Stórnvöld í Kaliforníu hafa nú uppi áform um það að skipta út einni milljón bensínbíla fyrir rafmagnsbíla. Borgarstjórar San Francisco, Oakland og San Jose tilkynntu nýverið um ákvörðun þess efnis að verja um einum milljarði bandaríkjadala til þess að fjölga rafmagnsbílum á götum borganna. Stefnan er sú að rafmagnsbílar verði raunverulegur kostur fyrir árið 2012.

Breska blaðið Guardian greinir frá þessu á vefsíðu sinni. Þar segir jafnframt að á heimsvísu valdi bensínbílar um 20% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það myndi því segja sitt ef bensínbílum yrði skipt út fyrir rafmagnsbíla.

Kalifornía er það fylki Bandaríkjanna sem duglegast hefur verið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er það stefna stjórnvalda þar að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 80 af hundraði, fyrir árið 2050. Aðgerðir líkt og Kalifornía stendur  nú að hefur mikið að segja en þess má geta að hagkerfi fylkisins er það áttunda stærsta í heiminum. Rafmagnsbílunum fylgir ekki aðeins hreint loft heldur skapa þeir ný störf við framleiðslu.