Hitareikningar munu hækka um 3,7% um áramótin, að því er fram kemur í tölum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Verð Orkuveitunnar á heitu vatni lækkar um 0,1% en virðisaukaskattur hækkar úr 7% í 11% og þetta skýrir verðbreytingar.

Virðisaukaskattur á rafmagn lækkar hins vegar um áramótin úr 25,5% í 24% og engin breyting verður hjá Orkuveitunni á dreifiverði rafmagns. Dreifiverðið er meira en helmingur rafmagnsreiknigsins og þessi lækkun mun valda 1,2% lækkun á rafmagnsreikningum.

Vatns- og fráveitugjöld hækka um 1,26% en þau eru lögð á miðað við stærð húsnæðis og taka breytingum með byggingavísitölu. Þá munu almenn þjónustugjöld Orkuveitunnar ekki breytast en þar sem þau bera flest virðisaukaskatt í hærra þrepi lækka þau sem nemur lækkun virðisaukaskattsins.

Samkvæmt útreikningum Orkuveitunnar mun rafmagnsdreifingarverð lækka um 1,2%, vatns- og fráveituverð hækka um 1,3% og verð á heitu vatni um 3,7%. Þetta er miðað við 100 fermetra íbúð í Reykjavík sem notar 5.000 kílóvattstundir af raforku og 500 rúmmetra af heitu vatni, sem er algeng notkun að sögn OR. Mismunur í krónum mun nema 274 krónum.