Árni Benediktsson og Þór Jes Þórisson hafa hlotið sæmdarheitið: „rafmagnsverkfræðingur ársins”. Um er að ræða sameiginlega viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands og IEEE, alþjóðlegs félags rafmagnsverkfræðinga sem er með um 375 þúsund félagsmenn í yfir 160 löndum.

Árni Benediktsson lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1976. Að loknu námi hóf hann störf hjá Landsvirkjun og á árunum 1976-1984 starfaði hann við eftirlit með uppsetningu vél- og rafbúnaðar í Sigöldu- og Hrauneyjarfossvirkjun.

Árni starfaði síðan sem faglegur stjórnandi við rekstur aflstöðva Landsvirkjunar þar til árið 2002 að hann tók við vél- og rafbúnaðardeild framkvæmdasviðs Landsvirkjunar. Árni starfar í dag sem þróunarstjóri orkusviðs Landsvirkjunar.

Í tilkynningu segir að sem deildarstjóri vél- og rafbúnaðardeildar hjá Landsvirkjun bar Árni faglega ábyrgð á hönnun, vali, kaupum og uppsetningu á vél- og rafbúnaði Kárahnjúkavirkjunar.

„Þegar fyrir lá að dráttur yrði á verklokum við aðrennslisgöng virkjunarinnar, stóð Árni fyrir aðgerðum sem leiddu til þess að það tókst að gangsetja álverið á Reyðarfirði á réttum tíma. Hugmyndin að baki þeim aðgerðum fólst í því að keyra eina vél án vatns sem samfasavél með ákveðnum breytingum. Með þessum aðgerðum var hægt að ná upp nægu skammhlaupsafli í annars veiku raforkukerfi Austurlands til þess að hægt væri að gangsetja álverið. Ávinningurinn af þessu var gífurlegur jafnt fyrir samfélagið á Austurlandi sem og kaupanda og seljanda raforkunnar,“ segir í tilkynningunni.

Þór Jes Þórisson lauk verkfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1986. Að lokinni hnattferð hóf hann störf hjá Póst- og símamálastofnun. Hann var verkfræðingur á sambandadeild fram á árið 1992 en hóf þá störf við uppbyggingu markaðsdeildar þar sem hann varð síðar forstöðumaður. Í lok 1997 tók hann sæti í framkvæmdastjórn Pósts og síma hf., sem framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs. Nú gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra tæknisviðs Símans hf.

Í tilkynningu kemur fram að Þór var var drifkraftur við uppbyggingu gagnaneta Símans, bæði með ATM og IP tækni og hefur alla tíð verið ötull stuðningsmaður þekkingarleitar og rannsókna þar sem lagður er þekkingargrunnur að tækniuppbyggingu seinni tíma.

„Undir forystu Þórs hefur Síminn m.a. byggt upp ADSL2+ kerfi sem nær til tæplega 90% landsmanna, sjónvarpsdreifingu með IP tækni (IPTV) sem um 35% heimila nýta sér og byggt upp 3. kynslóðar farsímakerfi á höfuðborgarsvæðinu, sem verður útvíkkað til að ná til þorra landsmanna á næstu árum. Auk þessa hefur Þór verið baráttumaður um innleiðingu ljósleiðara í aðgangsnetinu en á þessu ári verða aðgangsnet í nýjum hverfum einungis byggð á ljósleiðurum.“

Þetta er í annað sinn sem viðurkenningin „rafmagnsverkfræðingur ársins”er veitt hér á landi.

Markmiðið er m.a. að vekja athygli á árangri verkfræðinga í starfi og afrekum þeirra sem vert er að halda á lofti. Verðlaunin eru veitt þeim rafmagnsverkfræðingum sem hverju sinni þykir skara fram úr í störfum sínum á sviði rafmagnsverkfræði eða fyrir íslenskt samfélag.

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Auglýst var eftir tilnefningum og voru skilyrði þau að viðkomandi væri Íslendingur eða starfandi á Íslandi. Sameiginleg dómnefnd VFÍ og IEEE á Íslandi valdi verðlaunahafana.

Í tilefni af verðlaunaafhendingunni komu hingað til lands tveir fulltrúar IEEE, þeir Anthony C. Davies, fyrrum formaður IEEE fyrir Evrópu, Afríku og Mið-Austurlönd og Lewis Terman, sem starfað hefur að rannsóknum hjá IBM og er í framboði til forseta IEEE.