Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir því að rafmagnsvespur verði skráningarskyldar og að ökuréttindi þurfi til notkunar á þeim. Engu að síður má enn keyra þær á gangstígum, sé sérstökum hjólastígum ekki fyrir að fara. Ráðgert er að frumvarpið muni leiða til minni sölu á rafmagnsvespum.

„Mér finnst ekki mjög gæfulegt að setja rafmagnsvespurnar út í umferðina,“ segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki á Íslandi. „Ef þær verða skráningarskyldar verða þær á götunum en rafmagnsvespurnar komast ekki nema á 25 kílómetra hraða. Það eru komnar þúsundir af þessum vespum í umferð. Ef þær fara út á göturnar líka þá verður slysahættan meiri,“ bætir hann við.Frumvarpið gerir ráð fyrir því að rafvespurnar megi keyra í almennri bílaumferð ef hámarkshraðinn á akbrautinni er ekki meiri en 50 km/klst.

„Aftur á móti finnst mér eðlilegt að setja einhver aldurstakmörk á, til dæmis við tólf ára aldur. Í sjálfu sér eru þessar vespur ekki hættulegri en reiðhjól,“ segir Úlfar. Aðspurður segir hann lagabreytinguna munu hafa lítil áhrif á Suzuki, enda sé sala rafmagnsvespa lítill hluti af starfsemi félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .