Rafmyntafélagið Bitfury Iceland ehf. hefur hagnast um 460 milljónir króna undanfarin þrjú rekstrarár. Hagnaður félagsins nam 90 milljónum króna á síðasta rekstrarári sem stóð frá 1. apríl 2017 til 31. mars 2018. Hagnaður af rekstrarárinu 2016/2017 nam 128 milljónum króna  og 238 milljónum króna rekstrarárið 2015/2016.

Íslenska félagið er í eigu Bitfury Holding B.V., en móðurfélagið Bitfury Group er eitt stærsta rafmyntafélag heims. Það var stofnað árið 2011 af Litháanum Valery Vavilov og rekur nú með gagnaver á Íslandi, Noregi,Georgíu og Kanada. Þá er það með skrifstofur í Washington, London, Amsterdam, Moskvu, Dubaí, Hong Kong, Seúl og Tókíó.

Tíu milljarða hlutafjáraukning

Bitfury sótti sér 80 milljónir dollara í aukið hlutafé í nóvember, tæplega 10 milljarða króna. Félagið grefur sjálft eftir rafmyntum, einna helst Bitcoin auk þess að selja búnað til að grafa eftir rafmyntum og þróa eigin lausnir byggðar á kubbakeðjum (e. blockchain). Bloomberg segir að miðað við hlutafjáraukninguna í nóvember sé verðmæti Bitfury yfir milljarður dollara, eða yfir 120 milljarðar króna. Þá telur Bloomberg sig hafa heimildir fyrir því að til skoðunar sé að skrá félagið á markað. Kauphallirnar London, Amsterdam eða Hong Kong eru sagðar vera helst til skoðunar. Við skráningu væri vonast til að markaðsvirði félagsins yrði þrír og fimm milljarðar dollara, um 360 til 600 milljarðar króna samkvæmt heimildarmanni Bloomberg.

Með þeim fyrstu á Íslandi

Bitfury var eitt fyrsta félagið til að hefja námugröft eftir rafmyntum hér á landi. Starfsemi þess er hjá gagnaverum Advania á Reykjanesi. Samkvæmt ársreikningi Bitfury Iceland nam velta þess tæplega 2,5 milljörðum króna á síðasta rekstrarári og hækkaði um 850 milljónir króna milli ára. Kostnaður af seldri þjónustu nam 1,95 milljörðum króna en var 916 milljónir króna árið áður. Þá eru engin ársverk skráð hjá félaginu í fyrra en voru þrjú á fyrra rekstrarári. Því lækkar launakostnaður úr 39 milljónum króna í fimm milljónir króna á milli ára. Eignir félagsins námu 820 milljónum króna, skuldir 640 og eigið fé 184 milljónum króna í lok síðasta reikningsárs en félagið er að mestu fjármagnað með lánum frá tengdum aðilum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Umfjöllun um nýjustu vendingar í kjaraviðræðunum.
 • Fjallað um blikur á lofti í evrópskum flugrekstri.
 • Sagt er frá stöðu Heimavalla í kjölfar tillögu um að afskrá félagið.
 • Ítarleg úttekt á íslenska klasaumhverfinu.
 • Viðtal við Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar.
 • Umfjöllun um mögulega skaðabótaskyldu ríkisins vegna Landsímareitsins.
 • Óðinn skrifar um ógöngur evrusvæðisins.
 • Umfjöllun um hagvöxt eftir landshlutum síðasta áratug.
 • Fjallað er um afkomu Össurar.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
 • Týr skrifar um gyðingahatur.