Rafmyntakauphöllin FTX er metin á um 32 milljarða dala, eða sem nemur um 4.108 milljörðum króna, í kjölfar nýlokinnar fjármögnunarumferðar . Nokkur titringur hefur verið á rafmyntamörkuðum undanfarin misseri, en fjárfesta virðast þó sumir hverjir ekki hafa misst trúna á eignaflokknum.

Til að mynda hefur gengi stærstu rafmyntar heims, Bitcoin, fallið um 46% frá því í nóvember sl., er gengi myntarinnar var í sögulegum hæðum og við það að brjóta 70 þúsund dala múrinn.

Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar á Bahamaeyjum, safnaði 400 milljónum dala í svokallaðri Series C fjármögnunarumferð, en fjármögnunarumferðin var sú þriðja sem fyrirtækið hefur ráðist í á undanförnum níu mánuðum.

FTX er ein af stærstu rafmyntakauphöllum heims og á í harðri samkeppni við stórar rafmyntahallir á borð við Coinbase og Binance.

Frá stofnun hefur FTX alls safnað 2 milljörðum dala frá fjárfestum.