Markaðir með rafmyntir eru þegar byrjaðir að bregðast við yfirlýsingu kínverska seðlabankans í síðustu viku um að öll viðskipti með myntirnar séu ólögleg .

Huobi, einn stærsti markaður fyrir rafmyntir í heimi, er hættur að bjóða einstaklingum búsettum í Kína að búa til nýjan aðgang. Fyrirtækið hefur tilkynnt að það muni fjarlægja alla kínverska notendur fyrir lok ársins.

Binance, annar stór markaður með rafmyntir, er einnig hættur að taka við nýjum notendum sem skrá sig í gegnum kínversk símanúmer. Þá hefur smáforrit Binance verið fjarlægt úr netverslunum í Kína.

Kína hefur lengi verið einn stærsti markaður fyrir fjárfestingar og þróun á rafmyntum, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Þjóðin hefur verið einn helsti staðurinn fyrir rafmyntagröft. Rafmyntaiðnaðurinn virðist hins vegar ekki falla vel í gramið á kínverskum stjórnvöldum sem hafa lagt ýmsar takmarkanir á rafmyntir á síðustu mánuðum. Afstaða stjórnvalda varð mjög skýr á föstudaginn síðasta þegar kínverski seðlabankinn lýsti því yfir að öll viðskipti með rafmyntir væru ólöglegar.

Bitcoin féll um nærri 8%, eða úr 44,9 þúsund dölum í 41,1 þúsund dali, í kjölfar yfirlýsingar kínverska seðlabankans. Gengi Bitcoin hækkaði hins vegar um helgina og stendur nú í 43,8 þúsund dölum.