*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 11. júlí 2018 10:28

Rafmyntaþjónusta skráningarskyld

Þjónustuaðilar sem bjóða upp á rafmyntaviðskipti skulu skrá sig hjá FME fyrir lok júlí.

Ritstjórn
Bitcoin er stærsta rafmyntin, en ein eining hennar er um 680 þúsund íslenskra króna virði í dag.
epa

Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og bjóða upp á stafræn veski skulu óska eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir lok júlí, samkvæmt tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.

Þá hefur Fjármálaeftirlitið gefið út nýjar reglur um gjaldeyrisskiptastöðvar, peninga- og verðmætasendingarþjónustu, þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla, og þjónustuveitendur stafrænna veskja, en þær taka við af eldri reglum.

Samkvæmt frétt morgunblaðsins segir talsmaður dómsmálaráðuneytisins að horft hafi verið til löggjafar í Evrópu við setningu laganna. Rafmyntaráð Íslands fagnar löggjöfinni.

Mikill uppgangur hefur verið í rafmyntagreftri hér á landi síðustu misseri samhliða miklum hækkunum á gangvirði margra rafmynta, vegna þess hve raforkufrekur gröfturinn er, og raforka ódýr hér. Því hefur verið spáð að orkunotkun slíkrar starfsemi fari bráðum fram úr heildarnotkun heimila landsins.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur meðal annars gert þessa þróun að umræðuefni og talað um mikilvægi þess að koma á regluverki.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is