Enginn þeirra lífeyrissjóða sem svöruðu fyrirspurn Viðskiptablaðsins fjárfestir í rafmyntum né hefur áform um að hefja slíkar fjárfestingar, hvorki beint né í gegnum sérhæfða vísisjóði. Viðskiptablaðið hafði samband við tíu stærstu lífeyrissjóði landsins og svöruðu sjö þeirra. Rafmyntir, með Bitcoin í fararbroddi, hafa notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár meðal fjárfesta og nemur heildarvirði þeirra nú um 2.000 milljörðum Bandaríkjadala, sem er þó u.þ.b. 1.000 milljarða dala lækkun frá nóvember síðastliðnum þegar markaðsvirðið náði hæstu hæðum. Þar af nemur markaðsvirði Bitcoin um 825 milljörðum dala, en hver mynt er nú um 43.500 dala virði, en var um 67.000 dala virði þegar hæst var í nóvember.

Flestir þeirra lífeyrissjóða sem Viðskiptablaðið leitaði til varðandi mögulegar fjárfestingar í rafmyntum eða rafmyntasjóðunum voru afdráttarlausir í svörum - ekki væri fjárfest í rafmyntum og slíkar fjárfestingar hefðu ekki komið til tals né skoðunar. Örfáir sjóðir vildu þó ekki loka á þann möguleika á að ráðist yrði í fjárfestingar í rafmyntum í framtíðinni, þá líklega í gegnum sérhæfða sjóði, en slíkar ákvarðanir yrðu einungis teknar að vel ígrunduðu máli að loknum tilheyrandi greiningum.

Sigla í meginstrauminn

Árið 2017 átti sér stað alger sprenging í vinsældum Bitcoin þegar virði myntarinnar tæplega 20-faldaðist úr tæpum 1.000 dölum í rúmlega 19.000 dali. Ári síðar hafði virði myntarinnar lækkað í 3.500 dali en miklar sveiflur hafa átt sér stað í genginu undanfarin ár - hún náði hæstu hæðum í tæpum 70.000 dölum í nóvember síðastliðnum en féll umtalsvert í árslok og byrjun þessa árs. Þessar miklu sveiflur eru meðal ástæðna þess að stofnanafjárfestar voru framan af hikandi við að fjárfesta í Bitcoin og öðrum rafmyntum, þótt ljóst sé að til lengri tíma hafi hækkunin verið umtalsverð.

Auknar vinsældir Bitcoin og annarra rafmynta undanfarin ár hafa þó náð til fjárfesta í síauknum mæli. Þannig hefur eitt stærsta eignastýringar- og vörslufyrirtæki heims, Fidelity Investments, komið á laggirnar rafmyntaarminum Fidelity Digital Assets sem hefur farið ört vaxandi. Á síðasta ári kom fram að Fidelity Digital Assets hefði áform um að auka starfsmannafjölda sinn um 70 prósent til að anna ört vaxandi eftirspurn. Þá hafa erlendir lífeyrissjóðir, olíusjóðir og tryggingafélög einnig fjárfest í rafmyntum í síauknum mæli og sérstaklega eftir að kauphallasjóðir tengdir við Bitcoin voru settir á laggirnar í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu á síðasta ári.

Auk Bitcoin hefur fjöldi annarra rafmynta sem byggja á bálkakeðjutækni náð sterkri fótfestu, en gríðarlegar tækninýjungar hafa átt sér stað undanfarin ár. Þessi mikla nýsköpun hefur leitt til þess að fjöldi erlendra vísisjóða, meðal annars sjóða sem sérhæfa sig einvörðungu í rafmyntum og bálkakeðjutækni, er farinn að fjárfesta í þessum eignaflokki. Meðal þessara sérhæfðu sjóða eru Blockchain Capital, Polychain Capital, Pantera Capital og a16z Crypto Investments, en sá síðastnefndi er í stýringu eins fremsta vísisjóðs heims, Andreessen Horowitz. Þessir sjóðir fjárfesta ýmist beint í rafmyntum sem eru enn á frumstigi, jafnvel áður en þær eru aðgengilegar almenningi, eða í sprotafyrirtækjum sem byggja á bálkakeðjutækni.

Ljóst er að fjárfestar telja umtalsverð vaxtatækifæri liggja í rafmyntum og bálkakeðjutækni, en heildarmarkaðsvirði allra rafmynta er einungis fimmtungur af markaðsvirði gulls, sem nemur um 10.000 milljörðum Bandaríkjadala. Þá nemur markaðsvirði hlutabréfa heims um 125.000 milljörðum dala, sem þýðir að rafmyntir ná einungis 1,6% af þeirri upphæð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .