*

mánudagur, 25. október 2021
Erlent 9. mars 2020 10:46

Rafmyntir tapa 26 milljörðum dala

Bitcoin og fleiri rafmyntir hafa fylgt lækkunum á heimsmörkuðum, og sjá sumir greinendur „höfuð og herðar“ hegðun.

Ritstjórn
epa

Rafmyntamarkaðurinn tapaði 26 milljörðum dala á einum sólarhring í kjölfar mikilla olíuverðslækkana á heimsmörkuðum og áframhaldandi lækkana á hlutabréfamörkuðum vegna áframhaldandi áhrifa Covid 19 kórónavírusins frá Wuhan í Kína.

Stærsta rafmyntin, Bitcoin, féll í virði um 10% á tímabilinu, en einnig fóru lækkanir ethereum, XRP og bitcoin cash í yfir tveggja stafa tölu. Þannig var lækkun Etherreum 13,67%, og fór það niður fyrir 200 dali um tíma þó nú sé það í 203,60 dölum, Bitcoin Cash lækkaði um 17,67% um tíma og XRP lækkaði um 12,17%.

Heildarmarkaðsvirði rafmynnta hafði um tíma í morgun lækkað um 26,43 milljarða Bandaríkjadala samkvæmt CNBC eða sem nemur 3.347 milljörðum íslenskra króna. Lækkun Bitcoin nemur nú 9,35% þegar þetta er skrifað og fór verðið á einni Bitcoin einingu niður í 7.925,37 dali, eða rétt rúmlega 1 milljón íslenskra króna, en hæst fór það í gær í 8.757,84 dali.

Bitcoin hefur ekki verið jafnlítils virði síðan 13. janúar síðastliðinn. Á síðunni Cointelegraph er vísað í spár greinenda síðustu vikna um að ef gengi Bitcoin færi niður fyrir 9.400 dali, myndi sú lækkun halda áfram.

Vilja greinendur meina að hægt sé að sjá svokallað „höfuð og herðar“ mynstur í verðsveiflum Bitcoin síðan, en það byggir á þekktum kenningum um hegðun hlutabréfaverðs. Nú spá sömu aðilar að verð Bitcoin fari niður fyrir 7.600 dali en verðið ætti að ná jafnvægi í 7.422 dölum sem sé grunnverð sem haldist hafi síðan 23. nóvember 2019.

Stikkorð: hlutabréf olíuverð Bitcoin Ethereum Bitcoin Cash Covid 19 XRP