Haukur Alfreðsson framkvæmdastjóri bátasmiðjunnar Rafnar ehf., sem eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur farið í gegnum ítarlega fjárhagslega endurskipulagningu síðustu ár sem meðal annars fól í sér fækkun starfsmanna úr um 45 í 12, segir áherslu fyrirtækisins eftir endurskipulagninguna og margra ára þróunarstarf nú vera á sölu- og markaðsstarf.

Það sé gert í samfloti með neti samstarfsaðila sem fyrirtækið er nú að byggja upp. „Rafnar Maritime er samstarf Rafnar ehf. á öllum sviðum, sölu- og markaðsmálum, framleiðslu- og vöruþróun sem og í innkaupum við aðila sem hafa keypt framleiðsluleyfi á bátum Rafnar.

Nú hafa bæði Rafnar Hellas í Grikklandi, sem er samstarfsfyrirtæki með skipasmíðastöð þar í landi með áratugareynslu, og Rafnar UK í Bretlandi leyfi til þess að framleiða báta með skrokknum okkar undir vörumerkinu ÖK Hull. Þeir borga okkur fyrir hvern seldan bát ákveðið gjald, en inni í því er þjónusta og aðgangurinn að tækninni, og síðan erum við að setja upp sameiginlega vefsíðu og búa til bæklinga og annað, auk samninga um innkaup við framleiðsluna," segir Haukur.

„Með þessu erum við í raun að stækka Rafnar á mjög skömmum tíma, með því að gera svona samninga við aðila sem við trúum á, en samanlagt í öllum fyrirtækjunum er starfsmannafjöldinn nú aftur orðinn um 50 manns. Samningurinn um sölu á 10 til 13 bátum sem eru 11 metrar að lengd til strandgæslunnar í Grikklandi er fyrsti stóri samningurinn sem við gerum utan Íslands, en hann byggir á samböndum sem komu í gegnum sölusýningar þar sem við höfum verið að sýna bátinn okkar erlendis.

Við höldum vikulega fundi með bæði Grikkjunum og Bretunum þar sem við förum yfir mál, meðal annars erum við til dæmis að taka þátt í útboði á svona 25 til 30 bátum á Írlandi með Rafnar UK, sem og við erum að undirbúa útboð í Danmörku. Hver bátur yrði á svona 400 þúsund Bandaríkjadali, eða svona 50 til 60 milljónir króna á hvern bát. Síðan erum við búin að gera samninga um samstarf við aðila í Tyrklandi um smíði báta fyrir strandgæsluna þar. Það er eitthvað að gerast á markaðnum núna, menn eru að taka eftir bátunum okkar og að hérna sé eitthvað nýtt á ferðinni sem þeir séu farnir að hafa trú á."

Byrjaðir á óseldu björgunarskipi

Haukur segir bátalagið hafa marga kosti í för með sér sem sé fullkomlega skalanlegt upp í stærri skip, en núna einblíni fyrirtækið sér að markaðssetningu tveggja gerða, af stærðum 8,5 og 11 metra, en auk þess sé nú í undirbúningi að byggja 14 metra skip fyrir Landsbjörgu og fleiri aðgerðaaðila.

„Við höfum líka selt bátana okkar inn á skemmtibátamarkaðinn, en bestu viðbrögðin hafa verið frá opinberum aðilum í öryggis- og björgunartilgangi, eins og hjá Grikkjunum. Nú er í smíðum einn 11 metra björgunarbátur fyrir björgunarsveitina Ársæl sem á að afhenda í september, og síðan erum við í söluferli með annan slíkan í Karíbahaf sem við vonumst eftir að skrifa undir á næstu vikum.

Einnig erum þegar byrjaðir á mótinu fyrir nýtt 14 metra skip, sem við höfum verið að þróa nú á þriðja ár með Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Þörfin fyrir stærri skip hjá björgunarsveitunum er orðin mikil því Arun class björgunarskipin, sem eru allt í kringum landið, eru hátt í 45 ára gömul. Það er ekki búið að semja um þetta, og er Landsbjörg einnig að skoða báta frá öðrum aðilum innlendum og erlendum, og nefnd á vegum forsætisráðherra er að vinna tillögur um aðkomu ríkisins varðandi fjármögnun bátanna," segir Haukur.

„Við höfum væntingar um að það verði keyptir 10 til 13 bátar af þessari nýju lengd fyrir þessar helstu björgunarsveitir allt í kringum landið, en við vonum að haft verði í huga við ákvörðunina að stjórnvöld vilji hvetja til þess að halda störfum og þekkingu hér á landi. Við erum þó byrjaðir að smíða mótið enda ætlum við okkur að vera í startholunum og geta hafið smíði strax í haust ef okkar bátur verður fyrir valinu.

Það er ekki bara Landsbjörg sem hefur samt áhuga á þessum nýju bátum heldur er hann að fá mjög góðar viðtökur niður í Grikklandi þegar þeir hafa verið að kynna sér hann undanfarnar vikur, svo það er í raun komin ákveðin samkeppni um hvert fyrsti báturinn fer."

Allt að 10% eldsneytissparnaður

Haukur segir að þótt félagið einblíni á markaðinn fyrir minni báta nú um stundir sér hann fyrir sér að hægt verði að selja leyfi fyrir smíði um 100 metra farþegaskipa til skipasmíðastöðva þegar tæknin verður orðin þekktari.

„Við erum með einkaleyfi fyrir skrokknum, ÖK Hull er skrásett vörumerki, sem og Rafnar fyrir nafninu og merkinu. Það er að koma í ljós að fyrir þessi stærri skip þá verður sparnaðurinn í eldsneytisnotkun jafnvel meiri, og er þar verið að tala um allt að 10% á vissu hraðabili," segir hann.

„Kosturinn við báta með bátalagi okkar hjá Rafnar er að þeir eru mun rásfastari en aðrir bátar, það er báturinn heldur hringnum án þess að skvetta rassinum og getur því farið sama hringinn aftur og aftur. Hann er mun mýkri í öldunni og engin hætta á að hann velti, ef fer í beygju á miklum hraða, það er eins og hann sé á teinum. Síðan erum við með mun hagkvæmari eldsneytisnýtingu og hærri meðalhraða en flestir bátar, nema í algeru logni.

Skrokkurinn skilar ákveðinni lyftingu á sjónum sem sparar eldsneyti, fyrir utan að aðrir bátar þurfa oft að vera að gefa mikið í og hægja á við ákveðna notkun, sem lætur hann halla meira í sjónum sem eykur viðnámið, sem aftur eykur eldsneytisnotkunina. Bátar með Rafnar bátalaginu eru alltaf láréttir í sjónum og þegar gefið er í, þá lyfta þeir sér rólega upp."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .