Orkumálastjóri, Guðni A. Jóhannesson og Einar Kiesel, framkvæmdastjóri World Energy Council (WEC) fyrir Evrópu, héldu erindi á fundi Orkustofnunar og Samorku, samtök orkufyrirtækja, sem haldinn var nýlega undir yfirskriftinni: Hver eru mest áríðandi alþjóðlegu atriðin á sviði orkumála 2016.

Eitt sem Einar Kiesel nefndi sérstaklega var aukin hætta á tölvuárásum á raforkukerfi, þá einkum í N-Ameríku og Evrópu, og mikilvægi þess að brugðist sé við með mótvægisaðgerðum, því dæmi hafa komið upp um að raforkukerfi einstakra landa hafi verið tekin yfir af erlendum aðilum.

Orkuþarfir framtíðar

Orkuráðið sem Einar stýrir, WEC, var stofnað árið 1923 og starfar undir merkjum Sameinuðu þjóðanna, með yfir 3.000 aðildarfélögum í yfir 90 löndum. Er hlutverk samtakanna að vera hlutlaus vettvangur sérfræðinga á vegum orkumála sem ýta á undir hagkvæma, stöðuga og umhverfisvæna orku öllum til hagsbóta.

Baldur Pétursson, verkefnastjóri fjölþjóðaverkefna og kynningar hjá Orkustofnun segir greiningar eins og þær á vegum samtakanna vera afar mikilvægar til að undirbúa orkumarkaðinn til að sjá breytingar og þarfir í framtíð sem best. Nú sé verið að vinna að enn umfangsmeiri greiningu á vegum WEC sem nái til ársins 2050.

60 milljarða ávinningur til notenda

„Á Íslandi hefur uppbygging endurnýjanlegrar orku gengið vel, bæði í formi raforku og jarðhita til upphitunar húsa, sem kemur fram í orkuöryggi og hagstæðu verði í alþjóðlegum samanburði,“ segir Baldur sem segir að ávinninginn, árlega að meðaltali 3% af landsframleiðslu frá 1970 sem er um 60 milljarða kr. sem hefur verið skilað til notenda í formi hagstæðs verðs.

„Samkvæmt mati Orkustofnunar er uppsafnaður ávinningur af nýtingu jarðhita hér á landi í samanburði við hitun með olíu, að mestu frá 1950, um 2.700 milljarðar króna sem  jafngildir um 34  milljónum  á hvert  fjögurra manna heimili, eða um það bil meðalverð íbúðar.“

Óvissa um framboð á olíu og gasi

Á ráðstefnunni greindi Einar Kiesel frá niðurstöðum skýrslu samtakanna um stöðu orkumála fyrir árið 2016. Byggir hún á mati 1.200 aðila á orkumarkaði í 90 löndum.

Þar kom meðal annars fram að þau atriði sem valda helst áhyggjum þeirra sem fylgjast með orkumörkuðum, sé þróun í alþjóðastjórnmálum, þá sérstaklega svæðisbundnar stjórnmálalegar áskoranir eins og ástandið í Mið – Austurlöndum og Rússlandi sem skapi óvissu um framboð á olíu og gasi.

Eins og gefi að skilja hafi alþjóðlegur samdráttur í efnahagsmálum einnig mikil áhrif, og þar skipti hagþróun í Kína og Indlandi gríðarlegu máli, auk gengissveiflna gjaldmiðla sérstaklega í nýmarkaðsríkjum sem valdið hafi erfiðleikum.

Ný tækni í geymslu á orku

En önnur atriði sem geta haft mikil áhrif varðar nýsköpun og þróun, einkum er varði geymslu á orku, skipulag orkumarkaða og atriða er varðar loftlagsmál, enn öll þessi atriði hafi í vaxandi mæli áhrif á orkumarkaði. Þróun í jarðgasi, sérstaklega í fljótandi formi til flutnings hefur haldist stöðug og framboð aukist.

Jafnframt séu kröfur um aukinn sveigjanleika á orkumörkuðum, sérstaklega á sviði minni orkufjárfestingar, á kostnað hefðbundinna viðskiptamódela sem byggja á fjárfestingum í stórum verkefnum. Auk þess dragi skuldbindingar landa um aukna áherslu á endurnýjanlega orkugjafa úr óvissu um þau mál.