Fyrirhuguð verksmiðja Silicor Material á Grundartanga hefur misst helming þeirrar raforku sem félagið hafði samið um og þarf félagið að semja um hana upp á nýtt við Orku Náttúrunnar. Í júlí 2014 skrifaði félagið á bak við uppbyggingu verksmiðju Silicor Material á Grundartanga undir viljayfirlýsingu með stjórnendum Orku Náttúrunnar, dótturfyrirtækis OR um sölu á 35 megavöttum af raforku til félagsins.

Í september 2015 var svo samningurinn um sölu á 40 megavöttum til verksmiðjnnar undirritaður en hann var til 15 ára með mögulegri framlengingu og átti afhending að hefjast árið 2018. Orkusamningar félagsins hafa verið með fyrirvara um að samningar um fjármögnun klárist, en gert er ráð fyrir að heildarfjárfestingin nemi um 95 milljörðum króna.

Orkusamningurinn rann út í mars

Orkusamningurinn við ON rann þó að sögn Fréttablaðsins út í lok mars síðastliðinn en framkvæmdir við byggingu verskmiðjunnar hafa verið í bið og hefur fyrirtækið gefið út að framkvæmdir hefjast ekki fyrr en dæmt hefur verið í máli fjölda aðila gegn félaginu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hófst aðalmeðferð í málinu í febrúar, en stefnendur eru Kjósarhreppur, Uhverfisvaktin við Hvalfjörð auk fjölda einstakinga, þar á meðal Skúla Mogensen, forstjóra Wow air, en hann er landeigandi við fjörðinn. Ekki fylgdi samkomulaginu við ON nein áform um byggingu nýrra virkjana, en verksmiðjan þarf 85 megavött á ári á fullum afköstum, miðað við áætlanir um framleiðslu á 16 þúsund tonnum af sólarkísli sem skapa á 450 störf.

Einnig samið við Landsvirkjun og HS Orku

Í kjölfar samninganna við ON var gerður skilmálasamningur við Landsvirkjun um þá orku sem upp á vantaði, sem gerði þó ekki ráð fyrir því að afhending orkunnar yrði fyrr en árið 2020, þó ekki sé enn búið að ganga frá endanlegu samkomulagi við Landsvirkjun.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku segir félag sitt hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á fimm megavöttum til Silicor Materials í júlí 2015. „Upphafleg tímasetning hennar er runnin og aðilar máls eru í góðum viðræðum um framhald málsins, þannig að það er alls ekki út úr myndinni,“ segir Ásgeir.

Frestur um lóðagjöld rennur út í september

Auk þess að tímafrestir um samninga um orku fyrir verksmiðjuna eru eða hafa runnið út, er félagið einnig undir tímapressu frá Faxaflóahöfnum, en í maí árið 2014 var skrifað um viljayfirlýsingu um lóðina á Grundartanga.

Lóðasamningurinn sjálfur átti svo að taka gildi í apríl árið 2016, en hann er með fyrirvara um að fjármögnun verksmiðjunnar myndi klárast. Gaf hafnarsamlagið út lokafrest í janúar síðastliðinn um gildistöku samninganna til septembermanaðar um að standa skil á gjöldum vegna lóðarinnar og vegna afnota af höfn.