Raforkukaupsamningur Rio Tinto Alcan í Straumsvík og Landsvirkjunar er með ábyrgð erlenda móðurfélagsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þegar fyrst var samið við Alusuisse um byggingu álversins árið 1966 var slík móðurfélagsábyrgð á samningnum og er það ennþá. Það þýðir að jafnvel þótt svo fari að álverinu yrði lokað myndi móðurfélagið þurfa að greiða fyrir rafmagnið út samningstímann, en samningurinn rennur út árið 2036.

Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um stöðu mála í Straumsvík og kemur þar meðal annars fram að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um samninginn nemi raforkukaup álversins á ári um 14,3 milljörðum króna. Á samningstímanum öllum nemur þessi fjárhæð því um 300 milljörðum króna á núvirði. Til að það sé viðskiptalega skynsamlegt að loka álverinu þyrfti fyrirsjáanlegt tap á rekstri þess á samningstímanum að vera meiri en sem þessu nemur. Ekkert bendir til að svo verði.

Nokkuð hefur verið rætt um þann möguleika að komi til verkfalls í vinnudeilu álversins við starfsmenn gæti það leitt til þess að Rio Tinto Alcan geti losnað undan samningnum og gæti því að skaðlausu lokað álverinu. Hefur verið látið í það skína að í samningnum við Landsvirkjun sé svokallað force majeure ákvæði, sem heimili slíka frágöngu, en samningurinn hefur ekki verið birtur opinberlega. Lögmenn sem Viðskiptablaðið hefur rætt við segja að almennt myndi verkfall af þessu tagi ekki falla undir slíkt ákvæði, en að force majeure ákvæði taki fremur til óviðráðanlegra ytri áfalla, svo sem jarðhræringa eða stríðsátaka. Þeir benda hins vegar á að orðalag samningsins ráði öllu hvað þetta varðar, en eins og áður segir er ekki vitað hvernig hann er orðaður.

Nánar er fjallað um stöðu mála í Straumsvík í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .