Um áramótin tóku gildi ný raforkulög sem opna fyrir samkeppni á raforkumarkaði. Í febrúar síðastliðnum fengu iðnrekendur í fyrsta sinn rafmagnsreikninga samkvæmt nýjum verðskrám. Samtök iðnaðarins hafa gert óformlega könnun meðal félagsmanna sinna og í ljós kom að um verulegar hækkanir á rafmagnsverði er að ræða. Færri dæmi eru um lækkanir.

Í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins kemur fram að breytingarnar koma misjafnlega við notendur eftir mynstri notkunar. Verðskrár eru talsvert breyttar og víða er um tilfærslur milli kostnaðarliða að ræða, t.d. hækkun á fastagjaldi en lækkun á taxta. Hækkanir eru langmestar á sértöxtum s.s. rofnum töxtum, tímaháðum töxtum og ótryggu rafmagni. "Þetta eru einmitt þeir taxtar sem stór iðnfyrirtæki hafa notið undanfarin ár. Þau hafa ekki fengið taxtana á silfurfati heldur lagt mikið á sig við að breyta verklagi og ýmsir hafa lagt í auknar fjárfestingar til að geta nýtt sér þessa taxta. Nú er þessari undirstöðu kippt undan rekstrinum þegar rafmagnsreikningurinn hækkar um tugi prósenta," segir í frétt Samtaka iðnaðarins.

Samtökin benda á að samkeppni ríkir fyrir stærri notendur sem geta nú valið sér orkusala. Orkustofnun gegnir eftirlitshlutverki í þessu nýja kerfi og hefur birt samanburð á verðskrám, sem má nálgast á vefsíðu Orkustofnunar. Samtökin hvetja atvinnurekendur til að láta reyna á samkeppnina.

Það flækir málið að einungis orkusalan er í samkeppni, dreifing orkunnar er í höndum sérleyfishafa sem eru orkufyrirtæki á hverju svæði. Þó verður áfram sendur einn reikningur og það er orkusalinn, sem samið er við, sem sér um það. Verðið fyrir dreifingu er fast í gjaldskrám og það er um helmingur verðsins. Þetta minnkar svigrúm til samninga.

Talsverður munur er á breytingum á verði milli landsvæða. Lækkun orkuverðs er einkum á landsbyggðinni en hækkunin kemur fram á þéttbýlli svæðum landsins. Rétt er að taka fram að þetta er dæmi um tilbúinn notanda en SI þekkja til þó nokkurra dæma sem líta mun verr út segir í frétt þeirra.