Samningur Landsvirkjunar og Elkem rennur út árið 2019 en ef samningar takast að nýju á milli fyrirtækjanna gæti það þýtt að tekjur Landsvirkjunar ykjust um 20 milljónir dollara á ári að því er kemur fram í nýrri grein á vef Öskju Energy. Elkem er fjórði stærsti einstaki orkunotandi á Íslandi en það framleiðir kísilmálm sem er blanda kísils og járns.

Núverandi samningur Elkem við Landsvirkjun er um tveggja áratuga gamall og má ætla að orkuverðið sé lágt eftir því. Elkem neytir um 8% af orku Landsvirkjunar en tekjur orkuframleiðandans af sölu til Elkem eru aðeins um 5% af heildartekjum vegna raforkusölu.

Matið á mögulegri tekjuaukningu Landsvirkjunar vegna nýrra samninga við Elkem byggir á því að byggt verði á svipuðum forsendum og var gert í nýjum samningi Norðuráls við Landsvirkjun en þar er samningsverðið tengt verði á uppboðsmarkaði á Norðurlöndunum. Miðað við núverandi verð myndi sú aðferðafræði tvöfalda raforkuverð til Elkem.

Þá vekur einnig athygli að álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík neytir um 24% af orku Landsvirkjunar á meðan 32% tekna hins síðarnefnda kemur frá Rio Tinto. Á sama tíma neytir Alcoa Fjarðarál um 34% orkunnar en hlutdeild í tekjum Landsvirkjunar er aðeins 24%.