Raforkuverð á heildsölumarkaði á meginlandi Evrópu er nú komið yfir 600 evrur fyrir megavattstundina víðast hvar. Það verð er án flutningskostnaðar, dreifingarkostnaðar og álagningu smásala. Til samanburðar er heildsöluverð raforku á Íslandi á bilinu 5 til 7 krónur á kílóvattstundina, sem samsvarar 35 til 50 evrum fyrir megavattstundina. Ástæða hækkunarinnar er mikill samdráttur í sölu á rússnesku gasi til Evrópu auk væntinga um að Rússar muni skrúfa alveg fyrir, þegar kólna fer í veðri með haustinu og raforkunotkun heimila eykst.

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur.
Þórður Gunnarsson, hagfræðingur.

Að sögn Þórðar Gunnarssonar, hagfræðings sem hefur sérhæft sig greiningum á hrávörumörkuðum, er orkuinnihald jarðgass er um það bil sex sinnum minna en hráolíu. Það þýðir því að núverandi raforkuverð jafngildir því að tunnan af hráolíu myndi kosta yfir 1000 dollara. "Sennilegast er best að setja raforku- og gasverð í þetta samhengi til að sjá hversu gríðarlega íþyngjandi raforkukostnaður er evrópskum heimilum og fyrirtækjum um þessar mundir," segir hann. Fá teikn séu á lofti um að staðan muni lagast til skemmri tíma, að sögn Þórðar.

En hvaða afleiðingar mun þetta ástand hafa fyrir evrópskan iðnað? „Þó svo að hrávöruverð hafi almennt farið lækkandi á síðustu vikum í kjölfar mikillar hækkunar eftir innrás Rússa í Úkraínu, þá getur þessi ógnarhái orkukostnaður aðeins þýtt eitt fyrir evrópskan iðnað. Annað hvort stöðva fyrirtæki starfsemi sína, með tilheyrandi samdrætti í framboði iðnaðarvara. Eða hækkandi aðfangakostnaður endurspeglast í söluverði framleiðslunnar. Í báðum tilfellum hlýtur niðurstaðan að vera almennar verðlagshækkanir,” segir Þórður.

Aðspurður hvort að ástandið á evrópskum orkumarkaði hafi afleidd áhrif hér á landi segir Þórður svo vera: „Við búum svo vel hér á Íslandi að hafa annars vegar hitaveitu og hins vegar ódýra raforku. Við erum því ansi vel varin fyrir beinum raforkuverðshækkunum, enda aftengd evrópska raforkumarkaðnum. Verðhækkanir á iðnaðarvörum og sú verðbólga sem vænta má á meginlandinu mun þó á endanum smita yfir til okkar. Stórar greiningardeildir erlendis eru að spá hátt í 20% verðbólgu í stærstu hagkerfum Evrópu og við munum ekki sleppa við innflutta verðbólgu á næstunni af þeim sökum. Álverð hefur lækkað nokkuð frá þeim hæðum sem það náði á síðasta ári. Framleiðslukostnaður áls hefur síst lækkað heldur þvert á móti. Verðlækkanir á áli skýrast einna helst af væntingum um minni eftirspurn vegna þess að evrópskur iðnaður er nánast á heljarþröm óyfirstíganlegs orkukostnaðar.”