Landsvirkjun sér fram á að á næstu árum muni eftirspurn eftir raforku aukast svo mikið að nauðsynlegt verði að hækka raforkuverð, bæði til þungaiðnaðar og almennings. Sú þróun gæti engu að síður haft mörg tækifæri í för með sér að mati Björgvins Skúla Sigurðssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar. Fram undan bíða Landsvirkjunar mörg spennandi verkefni en sem stendur er það t.a.m. komið í valferli fyrir tvö stór gagnaver. Almennur efnahagsbati drífur áfram aukna eftirspurn eftir íslenskri orku en hækkandi raforkuverð í kjölfarið getur leitt af sér áður ónýtta möguleika í fjölbreyttum orkuiðnaði.

„Landsvirkjun finnur nú áþreifanlega fyrir þeim efnahagsbata sem er að eiga sér stað í heiminum,“ segir Björgvin. „Þetta á jafnt við um aukinn áhuga erlendra aðila á Íslandi, en ekki síður í meiri notkun innlendra fyrirtækja – sjávarútvegs, ferðaþjónustu og smærri iðnfyrirtækja – sem eru að auka starfsemi sína vegna bættra markaðsaðstæðna. Í fyrra var raforkuvinnsla Landsvirkjunar meiri en nokkru sinni áður og umfram það sem við áttum von á. Þar munaði um innlendu eftirspurnina.“

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .