Raforkuvinnsla á landinu árið 2016 var alls 18.549 gígavött eða 921 gígavöttum minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og heildarálag á kerfið var 92 megavöttum minna en áætlað var. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Orkuspárnefndar . í skýrslunni er fjallað um raforkunotkun fram til ársins 2050.

Stafar þetta frávik árið 2016 af minni notkun sem fædd er frá flutningskerfinu (stórnotendur) og dreifikerfinu (almenn notkun) auk þess sem flutningstöp eru hlutfallslega minni en gert var ráð fyrir árið 2015. Úttekt frá virkjunum var aftur á móti meiri en spáð var að því er kemur fram í frétt Orkustofnunar um málið.

„Notkun tekin frá flutningskerfinu (stórnotendur) var 586 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir og þar af var frávikið hjá álfyrirtækjum 400 GWh og hjá United Silicon 195 GWh. Um áramótin 2015/2016 fluttist raforkuafhending til gagnavers Advania frá dreifikerfinu til flutningskerfisins og ef sú breyting hefði ekki komið til hefði þetta frávik verið meira eða um 680 GWh. Afhending frá dreifikerfinu var alls um 300 GWh minni en spáin miðaði við og ef ekki hefði komið til tilflutningur gagnavers Advania hefði frávikið verið rúmlega 200 GWh. Ef einungis er horft á forgangsorku er frávikið 173 GWh og ef ekki hefði komið til breytingin hjá Advania er það 79 GWh. Flutningstöp voru alls 52 GWh minni en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir. Úttekt vinnslufyrirtækja var 23 GWh umfram spá. Skerðanleg orka til almennra nota var 133 GWh minni en spáð var sem stafar að mestu af lítilli loðnuveiði,“ segir í spánni.

Samkvæmt spánni mun afhending frá dreifikerfinu aukast um 10% fram til 2020 og um 91% alls til 2050 og eru dreifitöp meðtalin. Árleg aukning þessarar notkunar er 1,9% að meðaltali næstu 34 árin. Minni fólksfjöldi í lok spátímabils en miðað var við í spánni frá 2015 dregur úr raforkunotkun heimila en á móti kemur að nýjar upplýsingar um bifreiðatíðni og breyting á forsendum um orkuskipti auka raforkunotkun heimila vegna samgangna og niðurstaðan verður aukning um 49 GWh við lok spátímabilsins.