Lýðræðislegar kosningar eru hornsteinn vestræns stjórnarfars og grundvöllur allra stærstu ákvarðana sem teknar eru hjá öllu frá yfirþjóðlegum stofnunum niður í smábæi og félagasamtök. Framkvæmd þeirra hefur hins vegar verið svo til óbreytt frá upphafi: kjósandi fær afhendan pappírsseðil og merkir hann þannig að vilji hans sé skýr. Seðlunum er svo safnað saman og þeir flokkaðir og taldir, og niðurstöðurnar í framhaldinu opinberaðar.

Á þessu er hins vegar að verða stórfelld breyting. Tækniþróun síðustu áratuga lætur fáa kima samfélagsins ósnerta og kosningar eru þar engin undantekning. Fyrstu rafrænu almennu kosningar sem haldnar voru í gegnum netið voru sveitarstjórnarkosningar í Eistlandi árið 2005, og tveimur árum síðar héldu Eistar fyrstu slíku þingkosningar í heimi.

Fá þjóðríki hafa þó tekið upp slíkt kerfi fyrir almennar kosningar, og hér á landi er enn notast við pappírsaðferðina. Rafræna aðferðin hefur hins vegar verið að ryðja sér til rúms í ýmsum smærri kosningum. Til að mynda hafa borgarbúar getað kosið rafrænt um ýmis verkefni í sínu nærumhverfi síðustu ár.

Verkalýðsfélögin sparað tugi milljóna
Umfangsmesta innleiðing tækninnar hefur þó átt sér stað hjá verkalýðsfélögunum, en hugbúnaðarfyrirtækið Advania hefur þróað slíkt kerfi í samstarfi við ASÍ.

Sigurður Másson, deildarstjóri hjá Advania, segir kosti rafrænna kosninga ótvíræða. Ekki aðeins séu þær öruggari en hin hefðbundna pappírsframkvæmd, heldur spari þær eðli máls samkvæmt gríðarlega fyrirhöfn, tíma og kostnað. „Það er þægilegra, einfaldara og ódýrara að gera þetta allt rafrænt.“

Verkalýðsfélögin hafa að eigin sögn sparað tugi milljóna með hinu nýja kerfi, en fjölmennustu kosningar sem kerfið hefur séð um snerust um Salek-samkomulagið og töldu um 80 þúsund manns á kjörskrá. Til samanburðar hleypur kostnaður hins opinbera við allsherjarkosningar á borð við þing- og sveitarstjórnar á hundruðum milljóna króna.

Sigurður segir kerfið hafa gefist vel. Þótt rafræn framkvæmd geti ýtt undir þátttöku í kosningum með því að einfalda hana, velti hún þó eftir sem áður öðru fremur á áhuga kjósenda. „Þó þú breytir hlutum yfir í rafrænt þá fær fólk ekki skyndilega áhuga. Fólk sem hefði ekki kosið kýs ekkert frekar þannig. Fyrir þá sem hins vegar hafa áhuga er auðveldara að kjósa,“ en kjörsókn hefur verið gríðarlega mismikil. „Við höfum verið með kosningar með 90% þátttöku og við höfum verið með kosningar með 5% þátttöku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .