Skuldabréfum Landsbankans til endurfjármögnunar íbúðalána er nú þinglýst rafrænt, kjósi viðskiptavinurinn það. Bankinn er sá fyrsti til að bjóða upp á þetta, og vinnur nú að því sama fyrir öll íbúðalán sín, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Þetta þýðir að nú geta viðskiptavinir okkar endurfjármagnað íbúðalánin sín, gengið frá skjölunum og bankinn svo þinglýst rafrænt. Ekki er lengur þörf á að fara til sýslumanns til að þinglýsa,“ segir ennfremur, og er því bætt við að um stórt og viðamikið verkefni sé að ræða, sem unnið hafi verið að frá 2019 í samstarfi við opinbera aðila.

Haft er eftir Lilju Björku Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans að áhersla á samkeppnishæf kjör og góða þjónustu hafi leitt til ört stækkandi markaðshlutdeildar á íbúðalánamarkaði nýverið.

„Þrátt fyrir stóraukna eftirspurn hefur okkur því tekist að gera ferlið við íbúðalánatöku og endurfjármögnun einfaldara og fljótlegra. Með rafrænum þinglýsingum íbúðalána styttist biðtími enn frekar og sporin sparast. Okkar markmið er að einfalda viðskiptavinum lífið og rafrænar þinglýsingar íbúðalána gera það svo sannarlega.“